Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Einhvað og eikkern megin ...
Föstudagur 9. október 2020 kl. 12:39

Einhvað og eikkern megin ...

... audda og kvaseiru? Ég geri ekki ráð fyrir því að vera sú eina sem hef brennandi áhuga á tungumálinu okkar. Það er erfitt að halda því ósködduðu í samfélagi þar sem aðgengi að efni á internetinu er svo til allt á ensku. Börnin okkar alast upp við að horfa á enskt efni og lesa á ensku og með því er ég ekki að segja að þau gleymi íslenskunni en það hefur áhrif. Talmál brenglast, stafsetning brenglast. Ég fyrirgef yngri kynslóðum ansi margt, eins og slettur af og til og skammstafanir sem ekki voru til þegar ég var að alast upp, þar sem samskipti fara mikið fram rafrænt – en langvarandi brenglun á tungumálinu er eitthvað sem við verðum að passa upp á. Áður en lengra er haldið skal ég viðurkenna að ég er óþolandi mamman sem leiðrétti börnin mín gegndarlaust ef sletturnar ganga fram af mér og skrumskælingin fer yfir ákveðin mörk.

Viðurkenni hins vegar fúslega ánægju mína með að enska er orðið annað tungumál í skólagöngu barna en ekki danska eins og þegar ég var að alast upp. Ég hefði kosið betri og lengri enskukennslu í mínu námi því ekki hef ég notað dönskuna mikið. Engu að síður hef ég ekki þolinmæði fyrir því þegar börn tala hreinlega eingöngu ensku. Mér finnst mikilvægt að viðhalda okkar tungumáli og kenna börnum okkar að nota öll þessi fallegu orð sem íslenskan hefur að geyma. Lendi oft í að leiðrétta ellafu ára stjúpson minn sem notar enska setningaruppbyggingu. Til dæmis: „Þetta er hvað ég sagði“ í staðinn fyrir „ég sagði það“ og „ég ætla að taka sturtu“ í staðinn fyrir „ég ætla að fara í sturtu“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ekkert ofangreint er eitthvað sem kemur á óvart. Við búum á lítilli eyju norður í Atlantshafi og samgöngur til annarra landa tíðar. Atvinnuvegir okkar byggjast mikið á útflutningi og því mikilvægt að geta bjargað sér á öðru tungumáli. Mér finnst að sjálfsögðu ekkert mál að reyna að viðhalda íslenskunni hjá börnunum okkar með því að biðja þau hreinlega að tala íslensku þegar við á. Öllu verra finnst mér þegar við tölum íslenskuna bandvitlaust. Þá fer stafsetningarpúkinn í mér á flug og ég leiðrétti börnin mín hiklaust. Verst af öllu er þó þegar maður talar við fullorðið fólk sem talar vitlaust en ég er nú ekki alveg svo óþolandi að ég sé grípandi fram í með leiðréttingar í tíma og ótíma – en ég geri þó þá kröfu til fólks sem vinnur við það að skrifa fréttir, bækur, greinar og þess háttar eða æðsta valdið okkar, fólkið sem vinnur á Alþingi, fari rétt með málið okkar. Ég er án nokkurs vafa ekki sú eina sem tryllibilast aðeins í hvert sinn sem ég heyri „eikkern megin“ sagt. Í eitt skipti fyrir öll, þá á að segja „einhvern veginn“, punktur!

Mæli heilshugar með þáttunum Kappsmáli á RÚV sem byggja svo skemmtilega á okkar ylhýra móðurmáli og vona að okkur gangi öllum vel að viðhalda móðurmálinu um ókomin árhundruð.