Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Dynkur
Föstudagur 7. júní 2024 kl. 09:57

Dynkur

Skeiða- og Gnúpverjahreppur er meðal fegurstu sveita landsins. Þar er blómlegt mannlíf og fagrir fossar. Þar er líka Lionsklúbburinn Dynkur sem heitir í höfuð fossins. Frá því að við hjónin fluttum hingað í sveitina hefur verið hart lagt að mér að ganga í klúbbinn. Ég hef náð að þráast við með ágætis árangri, þar til um þar síðustu helgi er okkur hjónum var boðið í vorferð klúbbsins.

Farið var um sveitir Suðurlands þar sem óhefðbundinn landbúnaður var skoðaður, viskíframleiðsla Flóka og svo framleiðsla Korngrís á byggi og rúg að Gunnarsholti. Meiningin var síðan að keyra inn Fljótshlíð, á slóðir Gunnars á Hlíðarenda. Þar sem ég sit aftarlega í rútunni og verst fimlega tilraunum sveitunga minna við að selja mér silfurhana endar ferðin með dynki. Rútan fer út af veginum og veltur heilan hring. Lífið þeytist framhjá í augnablikum þar til rútan endar aftur á fjórum hjólum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Því miður urðu nokkur slys á fólki en betur fór en á horfðist, þó ljóst sé að sumir munu takast á við afleiðingar slyssins í einhvern tíma. Eftir situr ótrúleg upplifun af samheldni klúbbfélaganna og svo viðbragða björgunaraðila.

Í huganum liðu bara örfáar mínútur frá því að slysið varð þar til að fyrstu björgunaraðilar birtust á svæðinu, bara sú sjón að sjá þá koma veitti mikið öruggi. Fumlaust unnu þeir verk sín, flokkuðu áverka hinna slösuðu og spurðu margoft um kennitölu og nafn til að kanna meðvitund viðkomandi.

Ég var settur í sjúkrabíl, á meðan konan fékk þyrluferð til Reykjavíkur. Frábær hjúkrunarfræðingurinn í sjúkrabílnum gerði mig tilbúinn til skoðunar, klippti utan af mér mín bestu ferðaföt og tengdi mig allskonar „meðalabrunna“ svo allt yrði sem auðveldast er komið yrði á Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem ég fékk svo frekari  umönnun við meiðslum mínum.

Eftir stendur þakklæti til björgunaraðila og vissa um að allt kerfið okkar sem við gagnrýnum svo oft virkar.