Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Dauft var það
Föstudagur 20. maí 2022 kl. 08:42

Dauft var það

Sveitarstjórnarkosningar sem fóru fram um allt land síðustu helgi, voru afar tíðindalitlar fannst manni heilt yfir og hvergi voru þær daufari en í Reykjanesbæ. Kjörsókn var afar dræm og í raun alveg ömurleg eða rétt rúmlega 47% sem ætti að vera mikið áhyggjuefni. Það þurfa einhverjir aðrir að rýna mun betur í þessi mál en ein tillaga frá mér væri að gera þetta kosningaferli rafrænt enda tæknin til staðar núna árið 2022. RÚV fjallaði svo um kosningarnar í Reykjanesbæ af sama áhuga og íbúar bæjarins sýndu þeim eða í heilar ellefu sekúndur. Reyndar var kosningasjónvarpið um helgina jafnvel verra og vandræðalegra en framlag Þjóðverja í Eurovision þetta árið (sem rak þar lestina með ekkert stig) og er þá mikið sagt.

Allir flokkar voru svo að venju sigurvegarar í kosningunum en enginn þó meiri en Framsókn sem poppuðu sig bókstaflega á toppinn. „Varnarsigur“ er samt orð orðanna eftir svona kosningar. Sjálfur fylgdist ég ágætlega með kosningabaráttunni hér í bæ og tók þátt í nokkrum viðburðum hjá flokkunum sem buðu hér fram. Ágætir viðburðir svo sem og allir að gera sitt besta en þetta ferli allt saman styrkti enn frekar þá skoðun mína að kannski væri betra að fá að velja fólk frekar en flokka. Í öllum flokkum fann ég nefnilega aðila sem ég gæti vel stutt við bakið á og aðra sem ég gæti það bara alls ekki. Hefði viljað fá að merkja við ellefu aðila af þessum listum sem boðið var upp á í ár og sumir sem ég hefði valið voru ekki einu sinni ofarlega á listum sinna flokka en að mínu mati fólk sem ég hefði viljað sjá í bæjarstjórn. Ætla þó ekki að kvarta enda lýst mér svo sem ágætlega á þessa ellefu aðila sem komust í bæjarstjórn að þessu sinni. Meirihlutinn af þeim eru konur sem er jákvætt og þarna er t.d. einn besti söngvari þjóðarinnar, Sverrir Bergmann (plús einn sá slakasti, Guðbergur Reynis) og óska ég öllu þessu fólki innilega til hamingju og óska þeim velfarnaðar í störfum. Framtíð Reykjanesbæjar er nefnilega björt og þar er best að búa!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er samt deginum ljósara að einhverjar breytingar þurfum við a.m.k. að gera því eins og sást um helgina þá er áhuginn á þessum kosningum sorglega lítill. Hvet flokkana til þess að skoða þessi mál betur enda skammarlegt að einungis 47% okkar nýtum rétt sem forfeður okkar börðust fyrir með kjafti og klóm.