Dagur í Mumbai á Indlandi
Þegar börnin eru orðin stór og maður fær meiri tíma fyrir sjálfan sig er mikilvægt að dusta rykið af gömlum draumum, láta vaða og skemmta sér vel í leiðinni. Undirrituð, ráðsett miðaldra frú tók meðvitaða ákvörðun um einmitt þetta fyrir nokkrum árum. Um þessar mundir er einn af draumunum að rætast.
Ég byrjaði daginn á að skoða borgina með morgunskokki. Hlaupið reynist vera eins og kröftugt utanvegahlaup á grýttum jarðvegi þar sem mikilvægt er að horfa hvar stigið er í hverju spori. Mumbai er 23 milljóna manna borg og göturnar og gangstéttir eru troðnar af fólki, sofandi hundum, köttum, vegaviðgerðum, skít og drasli. Í þau skipti sem mér tókst að líta upp blasti við stórbrotið mannlífið, örbirgð og allsnægtir, svakalegar byggingar frá nýlendutíma Breta og svo hús úr pappakössum í húsaskotum.
Eftir hlaupið átti ég bókað í nudd, Ayurveda nudd sem er mikilvægt að prófa þegar Indland er heimsótt, var mér sagt. Ég geng inn í nuddherbergið, nuddkonan snýr baki í mig en hún er í fallegum kjól og með svakalega fallegt og sítt svart hár. Hún heilsar og býður mér að leggjast og loka augunum. Það er eitthvað sérstakt við snertingu hennar, hvernig hún nálgast mig. Ég opna því augun til að kíkja betur á hana og sé þá mér til mikillar undrunar að hún er blind. Í barnaskap mínum hugsa ég hvort hún viti hvað hún er með fallegt hár. Nuddið er stórkostlegt og á meðan ég nýt stundarinnar þá fer það í gegnum huga minn, hvernig það sé að vera blind kona á Indlandi. En hún með þessa hæfileika og
kunnáttu getur þó allavega séð fyrir sér. Ég bið þess að hún sé elskuð.
Næst liggur leiðin í leiðangur um borgina í leigubíl á hraða skjaldbökunnar þar sem göturnar eru troðnar af bílum, vespum og hjólum. Þegar bíllinn stoppar á ljósum kemur ófrísk kona með barn í fanginu og bankar á gluggann hjá mér, örvæntingin í augum hennar er mikil. Þegar ég skrúfa niður rúðuna á bílnum, til þess að rétta henni smáræði, þá slær það mig hve hlutskipti mitt og okkar kvenna sem erum fæddar á Íslandi sé gott. Jesús minn þetta gæti verið ég. Ég þakka guði fyrir það líf sem mér hefur hlotnast.
Við höldum áfram, ökum fram hjá gömlum vörubíl sem er drekkhlaðinn af hænum í litlum búrum. Ég sé mann opna búrin og grípa þrjár hænur með vinstri en í hægri heldur hann á hnífi. Af veikum mætti berjast hænurnar fyrir tilveru sinni þegar hann gengur með þær á bak við kofa. Enn þakka ég almættinu hlutskipti mitt, ég myndi hvorki vilja vera hænurnar né maðurinn með hnífinn.
Við næsta torg í borginni liggur villihundur með tvo stálpaða hvolpa og nýtur sólarinnar og belja liggur bundin við staur, framhjá ekur svakalegur Benz með lituðu gleri í rúðum. Það er einkabílstjóri undir stýri og falleg kona með dreng situr aftur í. Þegar bíllinn er farinn fram hjá, sé ég lítinn berrassaðann dreng hlaupa eftir gangstéttinni og á eftir honum gengur tötraleg berfætt kona í rólegheitum, á höfðinu ber hún körfu fulla af fiski. Þessi kona er líka falleg.
Þegar ég kem svo á hótelið er búið að fara inn á herbergið og taka þar úr buddunni minni 20.000 kr. Ráðalaus get ég lítið gert annað en að óska þess þjófurinn noti aurinn öðrum til góðs þannig að karmað sem hann kallar yfir sig með því að stela verði kannski ekki eins slæmt.
Nýr staður á morgun þar sem grúskað verður í jógafræðunum næstu fjórar vikurnar.
Namaste.
Una Sig.