Burn 2000
Nýtt ár leggst bara ansi vel í mig enda 2020 falleg tala. Það eru örlítið merkari tímamót núna en við „hefðbundin“ áramót enda glænýr áratugur að hefjast. Þá lítur maður tilbaka og hugsar um það liðna, persónulega finnst mér það allt of stutt síðan að menn fögnuðu t.d. aldamótunum. Hugsa sér, það eru komin 20 ár! Það var mikið gert úr því þegar við fórum inní nýja öld, 1999 varð að 2000 og ýmsar hrakspár í gangi. Tölvur áttu að hrynja og sumir töluðu um heimsendi en ekkert breyttist í raun og veru.
Þessi aldamót voru mér persónulega afar merkileg, kannski ekki á góðan hátt en svo sannarlega eftirminnileg. Við félagarnir ætluðum svo sannarlega að fagna aldamótunum með stæl enda ungir og flottir (bara flottir í dag) og mikið partýhald planað. Það var gríðarleg stemmning í áramótapartýinu allt þangað til ég tók upp á því að sprengja sjálfan mig í tætlur. Reyndar algjört slys, það var heimatilbúin brenna fyrir utan og ég fleygði einhverju á brennuna sem var víst afar eldfimt og það sprakk með þeim afleiðingum að ég brenndist afar illa. Sú mikla sprenging sem varð olli því að eldurinn læsti sig í mér en sem betur fer þá var ég í ullarfrakka sem bjargaði miklu. Blessunarlega var ein ung og ólétt stúlka á svæðinu ökufær sem gat komið mér hratt og örugglega uppá HSS. Takk Eygló Anna. Það voru strax settar á mig kæliumbúðir og svo brunað með mig inná Landsspítala. Mömmu var tilkynnt að ég hefði brennst örlítið á putta en hún ætti samt að kíkja niðureftir, áfall hennar var mikið þegar hún sá þessar brunarústir.
Á Landspítalanum eyddi ég næstu fimmtán dögum og sem betur fer þá fór mun betur en á horfðist. Sár mín gréru að fullu, það tók sinn tíma en þetta voru erfiðir tímar fyrir ungan mann sem ætlaði bara að „taka djamm aldarinnar“ þetta gamlárskvöldið en endaði í staðinn á gjörgæslu. Hef áður skrifað um það en heilbrigðisstarfsfólk okkar Íslendinga er stórkostlegt. Vinir mínir og fjölskylda voru dugleg að heimsækja mig og stöppuðu í mig stálinu. Vinirnir færðu mér Kentucky Fried þegar ég var kominn með leið á matnum á spítalanum og meira að segja sumir þeirra voru tilbúnir að gefa mér skinn af líkama sínum ef ígræðslu þyrfti.
Ég er þakklátur að ekki kom til þess enda gréri allt eðlilega að lokum. Ég var farinn að spá mikið í því hver vina minna væri með mýkstu og fallegustu húðina (sér í lagi ef mig vantaði á andlitið) en blessunarlega er mjúkur bossi Páls Kristinssonar ennþá á sínum stað óskaddaður.
Gleðilegt ár, megi 2020 færa ykkur öllum gæfu og gleði.
Örvar Þór Kristjánsson.