Blandaður úrgangur
„Þetta á ekki að fara í blandaðan úrgang,“ heyrði ég sagt ákveðið fyrir aftan mig þar sem ég stóð með glæran plastpoka með vel blönduðum úrgangi á gámastöð Kölku nýlega, lítt árennilegur í drullugum vinnubuxum og það litla hár sem er eftir standandi út í loftið. Í pokanum var allskonar; gamlar bækur, málað og ómálað timbur, rafmagnsnúrur, málning og gömul brauðrist, ásamt einhverju fleiru. Mér, gömlum manninum, fannst ekki hægt að blanda þessum úrgangi betur. Bjó mig undir að fá skammir fyrir hroðvirknina við flokkuninna, setti upp minn besta aumingjasvip og beið átekta.
Til mín kom ung kona með bros á vör og rauk með hendurnar beint ofan í pokann, dró upp brauðristina og spurði: „Hvað er þetta?“ Svarið var augljóst. „Brauðrist,“ svaraði ég heldur skömmustulegur. „Á hún þá ekki að fara í raftæki?“ spurði hún og lét mér eftir að ákveða hvort brauðristin væri raftæki eða blandaður úrgangur. Ég tók ristina og hljóp að litlum gám sem merktur var raftæki. Svona tók hún hvern hlutinn á eftir öðrum og bauð mér að flokka ruslið.
Þrátt fyrir yfirhalninguna við að flokka ruslið þá leið mér vel þegar ég yfirgaf gámastöðina, ég hafði fengið betri skilning á flokkun rusls og ég hafði fengið að kynnast einstakri, þolinmóðri þjónustulund þeirra sem á gámastöðinni vinna. Þar vinna starfsmenn sem örugglega sýna sinn besta mann á hverjum degi, létta manni lífið með skemmtilegu viðmóti og kenna manni um leið mikilvæga hluti við flokkun rusls. Upp í hugann kom ljóðlina Rúnars heitins Júlíussonar. „Það þarf fólk eins þig, fyrir fólk eins og mig.“
Takk fyrir mig starfsfólk Kölku.