Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Beita í Sandgerði og aka bölunum til Siglufjarðar
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 2. júlí 2021 kl. 08:25

Beita í Sandgerði og aka bölunum til Siglufjarðar

Eitthvað var nú lítið um pistil í síðasta blaði en skýrist það af því að ég var í hringferð með hóp af ferðamönnum frá Bandaríkjunum og var staddur á Egilsstöðum þegar ég fattaði loks að ég hafði steingleymt að skrifa pistil.

Egilsstaðir eru nokkuð langt í burtu frá Suðurnesjunum og sjávarútvegslega séð þá er nú enginn tenging á milli Egilsstaða og Suðurnesja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Annars er það nú þannig að ekki langt frá Egilsstöðum er Neskaupstaður og það eru nú þó nokkrir bátar frá Suðurnesjum sem landa þar og er aflanum að mestu ekið suður til Grindavíkur til vinnslu. Þar eru t.d. allir Einhamarsbátarnir; Gísli Súrsson GK er kominn með 150 tonn í fimmtán og mest 21 tonn, Auður Vésteins SU 148 tonn í fimmtán og mest 19,1 tonn og Vésteinn GK með 133 tonn í fjórtán og mest nítján tonn. Daðey GK er þar líka og hefur landað 56 tonnum í ellefu og mest 7,3 tonn í róðri.

Nokkuð stór hópur af línubátum er við veiðar við Norðurlandið og þá aðallega frá Siglufirði. Engin mokveiði er hjá þeim og eins og með hina bátana þá er mestum hluta af aflanum hjá bátunum ekið suður til vinnslu, mest til Grindavíkur en þó einhverju til Sandgerðis.

Óli á Stað GK með 78 tonn í sautján og mest tíu tonn, Margrét GK 69 tonn í sextán og mest ellefu tonn, Dóri GK er í Bolungarvík og hefur landað þar 54 tonnum í tólf róðrum og mest ellefu tonnum, Hulda GK 36 tonn í átta, Hópsnes GK, sem er á bölum, er með 27 tonn í tíu og mest fjögur tonn í róðri.

Maður setur dálítið spurningarmerki við Hópsnes GK, af hverju hann er þarna fyrir norðan. Beitt er af bátnum í Sandgerði og öllum bölunum þarf því að aka til Siglufjarðar og miðað við að báturinn hefur aðeins veitt um 2,7 tonn í róðri að meðaltali þá spyr maður: „Borgar þetta sig með öllum þessum kostnaði? Beita, aka bölunum fram og til baka og fiskinum þegar aflinn er ekki meiri?“ Hefði nú haldið að betra hefði verið að hafa bátinn á veiðum fyrir sunnan hvort sem það er frá Sandgerði eða Grindavík.

Hjá netabátunum er mjög lítið um að vera. Bátarnir hjá Hólmgrími eru allir stopp og því enginn á þorsknetaveiðum. Þeir fáu netabátar sem eru á veiðum eru á skötuselsveiðum og hafa landað í Sandgerði, t.d Sunna líf GK með 6,9 tonn í þrettán og Garpur RE 4,8 tonn í fimm.

Dragnótaveiðin hefur verið mjög góð og reyndar er nú mokveiði hjá bátunum frá Bolungarvík. Þar er aflahæstur bátur sem Sandgerðingar þekkja mjög vel, því í mörg ár var Örn KE gerður út þaðan þar sem Karl Ólafsson var skipstjóri. Sá bátur heitir núna Ásdís ÍS og hefur landað 433 tonnum í sautján róðrum í júní.

Af heimabátunum er Sigurfari GK með 162 tonn í ellefu og mest 41 tonn, Siggi Bjarna GK 113 tonn í tólf og mest tuttugu tonn, Benni Sæm GK 112 tonn í tólf og mest 19,6 tonn og Aðalbjörg RE 91 tonn í ellefu og mest nítján tonn. Allir landa í Sandgerði.

Togbátarnir eru komnir á smá flakk. Sturla GK með 322 tonn í fimm, landað í Grundarfirði og Hafnarfirði, og Pálína Þórunn GK 198 tonn í fjórum róðrum, landað á Siglufirði og Ísafirði.