Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Áskorun til bæjarstjórnar
Föstudagur 12. ágúst 2022 kl. 22:21

Áskorun til bæjarstjórnar

Má ekki segja að það sé komið haust? Veðrið undanfarna daga bendir a.m.k. til þess en þetta er búið að vera vægast sagt dapurt í sumar. Margir taka haustinu reyndar fagnandi enda byrjar þá blessuð rútínan en það er samt erfitt þegar sumarið hefur ekki ennþá mætt til leiks.

En nú þegar tekur að hausta er kannski tilvalið að auka þrýsting á meirihlutann í Reykjanesbæ um að lækka álagsprósentu fasteignaskatts. Afar brýnt mál finnst mér fyrir íbúa og fyrirtækin á svæðinu. Nokkur sveitarfélög gáfu það út strax í byrjun sumars að álagsprósentan yrði lækkuð verulega til þess að bregðast við gríðarlegri hækkun fasteignamats. Bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ hafa gefið það út að þetta verði rætt við gerð fjárhagsáætlunar nú í haust. Persónulega er ég afar vonsvikinn að sjá ekki álíka bókun og kom t.d. frá bæjarráði Kópavogs um að fasteignaskattar muni lækka samfara hækkun fasteignamats og á það við um íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Þetta skiptir íbúa og fyrirtæki í bæjarfélaginu miklu máli þegar heildarmat fasteigna á Íslandi hefur hækkað að meðaltali um 20% á yfirstandandi ári eða langmesta hækkun fasteignamats frá hruni. Hérna í bæ er hækkunin yfir meðaltali.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Maður trúir varla öðru en að Reykjanesbær bregðist við eins og mörg önnur sveitarfélög eru nú þegar að gera. Annað væri óafsakanlegt að mínu mati þegar mörg heimili eiga nú þegar í vandræðum að ná endum saman. Hér með er komin áskorun á bæjarstjórn Reykjanesbæjar og mikið væri nú gaman að sjá 100% samstöðu í þessu máli.

Gleðilegt haust.

Örvar Þ. Kristjánsson