Altjón á Erling KE í eldsvoða
Ekki er nú hægt að segja að veðurguðirnir séu búnir að vera hliðhollir útgerð á Suðurnesjum núna þessa fyrstu daga janúar. Bátarnir komust á sjóinn fyrstu tvo dagana og var veiði bátanna mjög góð. Nokkuð stór floti línubáta var við veiðar undan Krísuvíkurbergi og lönduðu í Grindavík. Síðan kom vitlaust veður og núna hafa bátarnir verið stopp í tæpa viku og ekki sér fyrir endann á þessari löngu brælutíð.
Við skulum samt líta aðeins á aflatölur þessa daga þótt veður hafi verið svona slæm. Guðrún Petrína GK er á Skagaströnd og kominn þar með 14 tonn í tveimur róðrum. Þar er líka Gulltoppur GK sem er með 19,4 tonn í þremur róðrum og Hópsnes GK sem er með 25 tonn í fjórum róðrum.
Af þeim bátum sem landa á Suðurnesjum er t.d. Addi Afi GK með tólf tonn í tveimur löndunum í Sandgerði, Dúddi Gísla GK 5,2 tonn í einni, Daðey GK átján tonn í tveimur, Dóri GK 17,2 tonn í tveimur, Geirfugl GK sautján tonn í tveimur, Sævík GK fimmtán tonn í tveimur og Katrín GK ellefu tonn í tveimur, allir að landa í Grindavík.
Dragnótabátarnir hafa líka lítið komist út. Sigurfari GK hefur reynt að skjótast út og náð að fara í þrjá róðra og er kominn með 16 tonn. Benni Sæm GK 11,4 tonn og Siggi Bjarna GK 9,9 tonn, báðir í tveimur róðrum.
Hjá netabátunum fór Grímsnes GK út á Selvogsbanka að eltast við ufsann en það gekk tregt hjá honum því aflinn var aðeins 4,4 tonn í einni löndun.
Aftur á móti var ansi góð veiði hjá Halldóri Afa GK sem kom með 7,9 tonn í einni löndun og ennþá betri hjá Hraunsvík GK sem kom með 19,6 tonn í tveimur róðrum og þar af 13,5 tonn í einni löndun. Halldór Afi GK landaði í Sandgerði og Hraunsvík GK í Grindavík.
Fyrst ég er kominn í netabátana þá er spurt: „Hvar er Erling KE? Þessi netabátur sem hefur átt sér sögu á Suðurnesjunum í um nítján ár, af hverju er enginn afli kominn á þann bát?“
Jú, svarið er nú kannski ekki það skemmtilegasta. Planið var að fara á sjóinn 2. janúar og mætti áhöfn bátsins um borð í bátinn – en þegar áhöfnin kom í Erling KE tók á móti þeim mikill reykjarþefur og allt svart af sóti. Kom þá í ljós að mikill eldur hafði komið upp í borðsal Erlings KE og hafði eldurinn kviknað að sjálfu sér en hann líka slokknaði að sjálfu sér. Enginn varð eldsins var og talið er að eldurinn hafi kviknað á nýársnótt.
Tjónið er gríðarlega mikið. Eldurinn brenndi allt í borðsal og eldhúsi bátsins auk þess sem sót er um allan bátinn. Um er að ræða svokallað altjón á bátnum og í samtali mínu við nokkuð marga sem tengjast bátnum þá var samhljóða álit að tími Erlings KE í útgerð væri búinn á Íslandi. Tjónið er það mikið að til þess að laga þetta þá þarf að rífa allt úr bátnum og það er tugmilljóna króna verkefni.
Mjög mikill kvóti er óveiddur á Erling KE, eða um 1.500 tonn og verið er að skoða hvað hægt er að gera. Líklegast mun annar bátur verða fundinn til þess að veiða kvótann sem Erling KE á óveiddan.
Erling KE á sér langa sögu á Suðurnesjunum. Báturinn var smíðaður árið 1964 í Noregi og hét fyrst Akurey RE 6. Hann var seldur 1972 til Akraness og fékk þá nafnið Skírnir AK 16 og því nafni gegndi hann í sextán ár, eða fram til 1988 þegar báturinn var seldur til Sandgerðis og fékk nafnið Barðinn GK 375. Rafn HF átti þá bátinn en þegar Rafn HF fór í gjaldþrot árið 1992 keypti Þorbjörn HF í Grindavík bátinn og fékk hann þá nafnið Júlli Dan GK 197, með því nafni var báturinn fram til ársins 2000 þegar Stakkavík ehf. í Grindavík keypti bátinn og fékk hann þá nafnið Óli á Stað GK 4. Stakkavík ehf. átti ekki bátinn lengi, aðeins í tæp tvö ár, því árið 2002 kaupir Saltver ehf. bátinn og nefnir hann Erling KE 140.
Báturinn er 58 ára gamall og á sér sögu á Suðurnesjunum í alls 34 ár. Þess má geta að undir nöfnunum Akurey RE, Skírnir AK, Barðinn GK og Júlli Dan GK þá stundaði báturinn loðnu og síldveiðar en fyrir utan það þá hefur aðalveiðarfæri bátsins þessi 58 ár verið net.
Eins og sjá má á myndunum var tjónið mikið af eldsvoðanum í Erlingi KE.