Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Allt er fertugum fært
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 6. september 2024 kl. 06:08

Allt er fertugum fært

Það er alltaf gleði og hátið að eiga afmæli – sérstaklega þegar farið er í nýjan tug, eins og t.d. þrjátíu, fjörutíu, fimmtíu og svo ofar. 40 ára er fínn aldur og þá kemur málshátturinn í huga; allt er fertugum fært.

Núna á íslenska kvótakerfið 40 ára afmæli og vanalega þegar einhver á 40 ára afmæli þá er fagnað og gleðin ræður ríkjum. Varla er nú hægt að segja að fólk fagni og hrópi húrra yfir 40 ára afmæli kvótakerfisins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árin 1981 til 1983 voru það sem kallað voru viðmiðunarár og árið 1984 var fyrsti kvótinn gefin út, síðan þá hefur kvótakerfið verið við lýði – og kannski ekki allir sammála um ágæti kvótakerfisins.

Í raun má kannski segja að kvótakerfið hafi verið gott og gilt þangað til árið 1990 þegar samþykkt voru lög á Alþingi þess efnis að selja mátti bát með kvóta. Þessi lagasetning hefur hægt og rólega gert það að verkum að einstak-lingsútgerðir eru svo til með öllu horfnar og kvótinn kominn í eigu fárra.

Hvernig hefur kvótakerfið komið við okkur Suðurnesjamenn?

Í stuttu máli má segja að það hafi ekki komið vel út. Árið 1984 var mikið líf og mikið um að vera í Sandgerði, Grindavík og líka Keflavík/Njarðvík. Tveir stórir togarar voru í Keflavík, Aðalvík KE og Bergvík KE, og í Sandgerði voru frá þremur og upp í fimm togarar, t.d. Sveinn Jónsson GK, Ólafur Jónsson GK, Haukur GK, Erlingur GK, Sveinborg GK og Ingólfur GK svo dæmi sé tekinn.

Á árunum 1984 til 2004 var ansi mikið um einstaklinga sem gerðu út báta og var veiðiskapur bátanna iðulega; net á vertíð, yfir sumartímann, humar og jafnvel rækja, og um haustið síld á þeim bátum sem voru á þeim veiðum, t.d. Geir Goði GK, Arney KE og Vonin KE.

Kannski stærsta og mest áberandi áhrif á veru kvótakerfisins fyrir Suðurnes er sú staðreynd að öll loðnu- og síldarvinnsla er horfin í burtu. Sem er mjög dapurleg staðreynd, sérstaklega þegar haft er í huga að það voru bátar frá Suðurnesjum sem fyrstir fóru til loðnuveiða, Árni Magnússon GK og Vonin KE, og loðnuvinnslan í Sandgerði var fyrsta loðnuverksmiðja á Íslandi sem tók loðnu til bræðslu.

Reyndar var Samherji búinn að endurbyggja mikið loðnuverksmiðjuna í Grindavík þá og þar var líka unninn kolmunni og síld en í febrúar árið 2005 þá kom upp stórbruni þar og með því hætti öll uppsjávarvinnsla í Grindavík. En í Sandgerði og í Helguvík kom Síldarvinnslan og hún lokaði báðum verksmiðjunum.

Um allt land eru áhrif kvótakerfisins mikil – og sérstaklega á Akranesi en Haraldur Böðvarsson (HB hf.) tók yfir Miðnes í Sandgerði og tók alla báta og kvóta í burtu þaðan, lokaði fiskvinnslu í Sandgerði. Grandi í Reykjavík tók síðan yfir HB og kvótinn sem var þar fór allur í Reykjavík og í dag er Akranes bara orðin svefnbær, svo til engin útgerð og engin fiskvinnsla.

Öfugt við Akranes og þrátt fyrir að allir togarar séu farnir frá Sandgerði þá er fiskvinnsla þar mjög mikil og sterk – og munar þar miklu um nálægð við flugvöllinn og aðgang að fiskmarkaði.

Þó svo að aflinn sé margfalt minni núna en var fyrir tíma kvótakerfisins þá hafa fyrirtæki sniðið sér stakk eftir vexti og verðmæti afla er töluvert enda er mikið unnið úr aukaafurðum, eins og t.d. Skinnfiskur í Sandgerði gerir og Haustak á Reykjanesi.

Það eru kannski einhverjir sem fagna þessu 40 ára afmæli – og þá líkalega þeir sem hafa selt sig út úr kerfinu og lifa góðu lífi á peningum sem þeir fengu fyrir kvótann sem var seldur.