Aflafréttir: Þungur róður á miðunum
Síðasti pistill endaði á smá umfjöllun um loðnuna og nýjustu fréttir eru þær að bátarnir sem eru að leita af loðnu hafa fundið smávegis af henni norður af Kolbeinseyjarhrygg sem er ansi djúpt út af norðurlandinu.
Það þýðir að ef þetta er sunnanganga þá á hún eftir að ganga ansi langt til þess að komast á hefbundnar hrygningarstöðvar sem hafa verið í Faxaflóanum.
En jú það því miður, hvort sem loðnan veiðist eða ekki, þá eins og áður hefur verið nefnt kemur hún ekki til Suðurnesja.
Frá því síðasti pistill var skrifaður hefur ekki beint gefið vel til róðra og má segja að ansi þungt hafi verið fyrir báta að róa. Reyndar er það nú þannig að þá daga sem bátarnir hafa komist á sjóinn, núna snemma í febrúar, hefur aflinn verið nokkuð góður.
Hjá dragnótabátunum er Benni Sæm GK með 49 tonn í þremur og mest 21 tonn. Sigurfari GK 29 tonn og mest þrettán tonn. Aðalbjörg RE tuttugu tonn í tveimur róðrum og mest ellefu tonn.
Siggi Bjarna GK, sem vantaði sáralítið uppá að verða aflahæsti dragnótabáturinn árið 2019, er loksins kominn aftur á sjóinn en báturinn bilaði snemma í desember 2019 og fór í slippinn í Njarðvík. Þar var gert við gírinn og samhliða því var báturinn málaður í nýjum litum Nesfisks. Aðeins Benni Sæm GK er þá eftir að fara í nýja útlitið sem bátarnir hjá Nesfisks eru komnir í. Fyrir utan Berglínu GK og Sóley Sigurjóns GK.
Netabátarnir hafa fiskað nokkuð vel. Grímsnes GK með 55 tonn í fimm róðrum og mest tólf tonn. Maron GK 35 tonn í fimm, Hraunsvík GK fjórtán tonn í fjórum og mest 6,8 tonn í einni löndun. Sunna Líf GK 13,3 tonn í þremur og mest 7,1 tonn í einni löndun. Halldór Afi GK 9,3 tonn í fimm og Þorsteinn GK átt tonn í tveimur róðrum.
Erling KE 118 tonn í fimm róðrum og mest 44,3 tonn í einni löndun. Erling KE fékk þann afla utan við Sandgerði en allir netabátarnir sem að ofan eru nefndir hafa landað í Sandgerði.
Línubátarnir gátu róið fyrstu daganna í febrúar en síðan kom brælutíð þangað til núna síðustu helgi þegar bátarnir komust á sjóinn. Mokveiði var hjá bátunum og má nefna að Sævík GK kom með kjaftfullan bát til Sandgerðis því landað var úr bátnum um átján tonnum í einni löndun og var uppistaðan af aflanum þorskur.
Eins og staðan er núna þá verður þessi vika umhleypingasöm og gefur kanski á sjóinn í tvo daga fram að helgi.
Í Grindavík liggur nýi Páll Jónsson GK núna, hann kom sem nýsmíði frá Póllandi í janúar og er verið að undirbúa bátinn til veiða. Gamli Páll Jónsson GK sem hefur þjónað Vísi ehf. í Grindavík í um tuttugu ár kom til Reykjavíkur með 79 tonna afla og eftir löndun var gengið frá bátnum, meðal annars var nafnskiltið sem er framan á brúnni tekið af. Þessi fengsæli bátur hefur því lokið hlutverki sínu, í það minnsta sem línubátur við Íslandsstrendur. Hann hefur þó ekki lokið siglingum sínum því báturinn á eftir að sigla yfir hafið. Hvort sem það verður í verkefni í Noregi varðandi olíuborpallanna eða í brotajárn verður að koma í ljós.
Gísli Reynisson
aflafrettir.is