Aflafréttir: Þeir hörðustu skjótast út þegar gefur á sjóinn
Núna er janúar orðin hálfnaður og veðurguðirnir hafa nú ekki verið neitt sérstakir síðustu daga. Frekar stífar norðanáttir og tíðarfarið ansi erfitt – en veiðin hjá bátunum hefur verið þokkaleg. Lítum aðeins á.
Hjá dragnótabátunum er Sigurfari GK með 32 tonn í sjö, Siggi Bjarna GK og Benni Sæm GK báðir með 26 tonn, Siggi með átta og Benni sjö róðra. Þegar þetta er skrifað þá munar ekki nema 55 kílóum á þeim tveim.
Gamli Farsæll GK frá Grindavík kom til Sandgerðis og landaði þar 1,2 tonni og fór síðan í Njarðvíkurslipp. Þar verður báturinn í tæpan mánuð en það á að hreinsa alla málningu af bátnum. Það eru kominn ansi mörg lög af málningu á bátinn og þau eru nú ansi mörg aukakíló á þyngd hans.
Hjá netabátunum er Langanes GK hæstur með 96 tonn í sex en hann er á ufsaveiðum og landar í Þorlákshöfn. Þar er líka Grímsnes GK sem er kominn með 67 tonn í fimm og mest 27 tonn. Erling KE er í Sandgerði og með 47 tonn í níu, Maron GK 24 tonn í sjö, Sunna Líf GK 10 tonn í fjórum, Halldór Afi GK 8,4 tonn í fimm, Hraunsvík GK sex tonn í fjórum, Birna GK 1,5 tonn í tveimur og Guðrún GK sex tonn í tveimur.
Hjá línubátunum er Óli á Stað GK hæstur með 55 tonn í átta og Geirfugl GK 51,5 tonn í átta, báðir mest með ellefu tonn. Báðir hafa landað í Grindavík og Sandgerði. Margrét GK 51 tonn í sjö, Daðey GK 42 tonn í átta, Sævík GK 41 tonn í átta, Dóri GK 35 tonn í sex, Steinunn BA 30 tonn í fimm en hún landar í Sandgerði og Beta GK 24 tonn í fimm.
Tveir handfærabátar hafa verið á veiðum og báðir að landa í Grindavík. Grindjáni GK með þrjú tonn í þremur og Sigurvon RE 2,7 tonn í þremur.
Stóru línubátarnir hafa flestir landað í heimahöfn sinni, Grindavík. T.d. Páll Jónsson GK með 146 tonn í einum, Fjölnir GK 128 tonn í einum, Hrafn GK 84 tonn í einum og Jóhanna Gísladóttir GK 83 tonn í einum.
Valdimar GK er með 152 tonn í tveimur sem landað var í Hafnarfirði og Grindavík, Sighvatur GK um 140 tonn í tveimur, landað í Grindavík og Hornafirði.
Ef togskipin eru skoðuð þá er Sóley Sigurjóns GK með 240 tonn í tveimur, landað í Hafnarfirði og á Ísafirði, Pálína Þórunn GK 125 tonn í þremur, í Sandgerði og á Ísafirði, Sturla GK 164 tonn í fjórum á Ísafirði og Berglín GK 64 tonn á Siglufirði.
Veðurfarið er nú ekki beinlínis til að hrópa húrra fyrir í vikunni og þeir hörðustu skjótast út þegar gefur á sjóinn.
Gísli Reynisson // [email protected]