Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Aflafréttir: Smávægilegir árekstrar á línuslóðum
Laugardagur 14. nóvember 2020 kl. 07:32

Aflafréttir: Smávægilegir árekstrar á línuslóðum

Tíminn heldur áfram, ekki er nú beint hægt að segja að nóvember byrji vel. Veðurfarið hefur gert sjómönnum lífið ansi erfitt og þegar þessi pistill er skrifaður hafa bátar lítið komist á sjóinn það sem er nóvember.

Þeir bátar sem hafa komist út hafa ekki fiskað mikið. Maron GK er með 2,9 tonn í aðeins þremur róðrum á netum en svo virðst vera sem Faxaflóinn sé búinn gagnvart netaveiðunum því þar var veiðin í október orðin frekar lítil. Maron GK byrjaði í Faxaflóa en var kominn undir Garðskaga í síðasta róðri sínum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aftur á móti hafa línubátasjómenn orðir þess varir að þorskurinn virðist vera að ganga inn á miðin út af Sandgerði því t.d í október var mjög mikið af ýsu í afla bátanna, allt upp í um 80% af aflanum var ýsa. Núna á laugardaginn síðasta fóru tveir línubátar út frá Sandgerði, Máni II ÁR og Alli GK. Alli GK var með 1.396 kg af ýsu og 1.339 kíló af þorski en Máni II ÁR var reyndar með mun meira af ýsu eða um 1,5 tonn og 545 kíló af þorski. Það skal tekið fram að þetta er ekki heildaraflinn hjá bátunum, þarna vantar þó nokkuð upp á aflann hjá þeim. Þetta voru tölurnar sem voru komnar þegar pistillinn var skrifaður.

Netabáturinn Erling KE er kominn úr slipp en framundan hjá honum eru netaveiðar og ansi mikill kvóti sem eftir er að veiða á bátnum, því alls á Erling KE eftir óveidd 1.631 tonn. Það verður fróðlegt að sjá hvort að þeir á Erling KE leyti fyrir sér utan við Sandgerði því Faxaflóinn er orðinn frekar dapur.

Einn netabátur hefur verið í Grindavík og er það Hraunsvík GK, aflinn hjá honum hefur frekar lítill, um 1,5 tonn í þremur róðrum. 

Reyndar er nokkuð merkilegt að sjá Grindavík og hvernig október og nóvember eru þar. Þessi stóra höfn, þar er svo til lítið sem ekkert um að vera því enginn línubátanna sem eru gerðir út þaðan eru að landa í heimahöfn sinni, þrátt fyrir að mikið magn af fiski sé unnið í Grindavík en stærstum hluta þess er ekinn suður til vinnslu.

Reyndar hefur orðið smá breyting þar til góðs því eftir að Þorbjörn ehf. lagði línubátnum Sturlu GK og keypti togbátinn Sturlu GK hefur Sturla GK landað í Grindavík, sem er gott mál. Þótt Sturla GK hafi landað í Grindavík þá hefur báturinn ekki verið að veiðum þar fyrir utan, heldur hefur báturinn verið að veiðum á línuslóð utan við Sandgerði núna í um fjórar vikur.

Það hefur skapað pínu árekstra þegar línubátarnir frá Sandgerði hafa verið út á sínum miðum, sem erum fjórar mílur út frá Sandgerði, að Sturla GK er beint í línuslóð þeirra.

Ekki alls fyrir löngu fór línubátur út, lagði línuna og lét skipstjórann á Sturlu GK vita en hann svaraði ekki, á endanum kölluðu þeir upp gæsluna og létu hana kalla í Sturlu GK svo hann myndi ekki toga í línuna.

Svæðið þarna utan við Sandgerði er nú reyndar mjög þekkt togsvæði og það er hægt að fara ár hvert 50 ár aftur í tímann og lengra og alltaf er hægt að sjá að togbátar hafa veitt þarna fyrir utan.

Ef við förum mjög langt aftur í tímann, aftur fyrir árið 1950, þá voru það ekki Vestmannaeyjar sem voru aðalverstöðin og miðin þar í kring. Nei, það voru nefnilega miðin út af Sandgerði. Bátar frá Sandgerði og Keflavík réru mikið á þessu sömu mið og talað er um varðandi Sturlu.

Í raun þá má fara enn lengra aftur tímann, þegar Bretar voru með togskipin sín, þá voru þau líka mikið á veiðum utan við Sandgerði. 

Ansi ótrúlegt að hugsa að miðin þarna úti eigi sér meira enn 120 ára sögu, ef ekki lengri, og alltaf hafa þessi mið verið gjöful af fiski. 

Með þessum pistli fylgir stutt myndband af Mána II ÁR og Alla GK koma til Sandgerðis snemma núna í nóvember.

Gísli Reynisson
aflafrettir.is