Aflafréttir: Sjávarútvegur á Selfossi og Suðurnesjum
Allir bæirnir á Suðurnesjunum hafa lengi verið miklir útgerðarbæir þó svo að það hafi aðeins minnkað hin síðustu ár. Þegar þessi pistll er skrifaður er ég aftur á móti staddur á Selfossi. Selfoss er stærsti bærinn á Íslandi sem hefur enga tengingu við sjóinn en þó má finna tengingu við Selfoss og Suðurnesin, nánar til tekið Selfoss og Sandgerði.
Hvernig má það vera, spyrjið þið kannski, að hægt sé að finna tengingu í sjávarútvegi við Selfoss og Sandgerði?
Jú, hana má finna í gegnum togara. Það er nefnilega þannig að árin 1976 og 1977 komu þrír togarar til Íslands sem allir voru um 500 tonn af stærð og allir voru smíðaðir í Póllandi. Einn togarinn fór til Vestmannaeyja og hét þar Klakkur VE. Sá togari er ennþá til og er ennþá gerður út, heitir Klakkur ÍS og er gerður út á úthafsrækju frá Ísafirði.
Árið 1977 komu tveir aðrir pólskir togarar til Íslands. Sá fyrri var Ólafur Jónsson GK sem Miðnes HF átti og sá seinni kom til Þorlákshafnar og fékk þar nafnið Bjarni Herjólfsson ÁR. Sá togari var reyndar ekki í eigu fyrirtækis á Stokkseyri heldur var hann í eigu Hraðfrystihúss Stokkseyrar en var skráður á Selfossi. Skrifstofa Hraðfrystihússins á Stokkseyri og skrifastofa útgerðarstjórans yfir Bjarna Herjólfssyni ÁR var á Selfossi.
Nokkuð sérstakt að togari hafi verið skráður á Selfossi og lagði upp fisk á Stokkseyri. Á þessum tíma var enginn Óseyrarbrú og framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins á Stokkseyri sagði í ræðu þegar togarinn kom að vonandi myndi koma togarans ýta undir það að brú yrði byggð yfir ósa Ölfusár.
Bjarni Herjólfsson ÁR var seldur árið 1985 til Útgerðarfélag Akureyringa og fékk þar nafnið Hrímbakur EA. Óseyrarbrúin kom ekki fyrr en árið 1988 og þurfti að aka öllum aflanum af togarnum frá Þorlákshöfn til Stokkseyrar og var þetta nokkuð löng leið fyrir tíma brúarinnar.
Ólafur Jónsson GK var eins og áður segir í eigu Miðness HF í Sandgerði og var í eigu þess alveg þangað til að Haraldur Böðvarsson HF á Akranesi sameinaðist Miðnesi HF og lagði allt í rúst þar ef þannig má að orði komast. Ólafur Jónsson GK var mikið breytt í Póllandi upp úr 1990 og lengdur, byggt yfir framan við brú og brúin hækkuð. Þetta voru miklar breytingar og þær töfðust nokkuð því Miðnes HF ákvað að breyta honum í frystitogara. Í dag þá er þessi togari ennþá til, heitir Viking og er skráður í Rússlandi.
Hann kemur reglulega til Íslands og landar þá í Hafnafirði og er ennþá með rauða og hvíta litinn sem hann var í þegar að Miðnes HF átti hann á sínum tíma. Það sem meira er á brúnni beggja vegna má ennþá sjá merki Miðness HF sem var sett á togarann en það merki var rautt á litinn en er hvítt í dag og sést nokkuð vel þegar vel er skoðað.
Ólafur Jónsson GK var alla tíð skráður í Sandgerði og hann landaði nokkuð oft þar en eftir að togarinn strandaði við innsiglingarbaujuna kom hann sjaldnar til Sandgerðis. Aftur á móti þegar að innsiglinginn og allt innan hafnar var dýpkað og því lokið 1992 þá kom Ólafur Jónsson GK oft til löndunar og var þá orðinn lengri og mun stærri.
Mesti afli sem Ólafur Jónsson GK kom með til Sandgerðis voru 300 tonn af úthafskarfa sem var ísað, og má geta þess að togarinn fékk þennan afla á aðeins þremur dögum og aðeins í níu hölum. Stærsta halið var 75 tonn en þá var Ólafur Jónsson GK ansi atkvæðamikill á veiðum á úthafskarfa sem var veiddur við 200 mílna lögsöguna utan við Reykjaneshrygginn. Í þessum túr fór Ólafur Jónsson GK um 530 mílur úr frá Sandgerði. Öll árin sem Ólafur Jónsson GK var gerður út frá Sandgerði var Kristinn E. Jónsson skipstjóri, Kiddi eins og hann var alltaf kallaður.
Já, það er sem sé tenging á milli Selfoss og Sandgerðis í sjávarútvegsmálum og örugglega má finna fleiri tengingar um sjávarútveg við Selfoss og Suðurnesin. Myndin sem fylgir með er tekin í Sandgerði um 1980 og þarna fremst má sjá Ólaf Jónsson. Reynir Sveinsson, faðir minn, tók myndina.