Aflafréttir: Rólegheit yfir fiskveiðum á Suðurnesjum
Júnímánuður kominn á enda og hann búinn að vera nokkuð rólegur í það minnsta í fiskveiðum frá Suðurnesjum.
Helst hefur eitthvað verið um að gera í Sandgerði en þar hafa margir handfærabátar verið að landa og hafa þeir verið að veiðum úti fyrir Garðskaga og þeir sem hafa verið að eltast við ufsann hafa verið á svæðinu í kringum Eldey.
Einungis stóru línubátarnir frá Vísi ehf. í Grindavík hafa verið að veiðum og hefur Kristín GK og Sighvatur GK báðir landað afla sínum í Grindavík. Kristín GK með 167 tonn og Sighvatur GK 173 tonn. Hinir bátarnir byrjuðu að landa í Grindavík en hafa síðan verið að landa á Djúpavogi og Siglufirði. Páll Jónsson GK er hæstur með 236 tonn í þremur róðrum.
Enginn netabátur hefur verið að veiðum í júni og það þýðir að enginn bátur frá Hólmgrími hefur verið að veiðum. Einungis tveir bátar hafa verið á skötuselsveiðum og eru það Sunna Líf GK sem er með 9,3 tonn í sjö í Sandgerði og Hraunsvík GK sem er með 3,2 tonn í fjórum í Grindavík.
Eins og áður hefur komið fram þá er Aðalbjörg RE eini báturinn á dragnót hérna frá Suðurnesjum og hefur gengið ansi vel hjá bátnum, kominn með 95 tonn í fjórtán róðrum. Nesfisksbátarnir hafa verið að landa í Þorlákshöfn eftir veiðar meðfram suðurströndinni. Sigurfari GK er með 124 tonn í þremur róðrum og mest 47,5 tonn í löndun.
Af handfærabátunum er Ragnar Alfreðs GK í sérflokki. Robbi, sem er eigandinn og skipstjóri á þessum 42 ára gamla báti, þekkir ufsamiðin ansi vel við Eldey og kom með 8,9 tonn í eini löndun þar sem að uppistaðan var ufsi. Hefur Ragnar Alfreðs GK landað í júní 16 tonnum í fjórum róðrum og er ufsi af því 11,3 tonn. Jón Pétur RE kemur næst honum og er með 9,5 tonn í átta en hann er á strandveiðum og er með nokkuð af ufsa í aflanum, eða 5,8 tonn.
Í síðasta pistli litum við aðeins á bátana sem eru í slippnunm í Njarðvík, við skulum halda því áfram í þessum pistli og halda þá áfram með bátana sem liggja næst þessum sem fjallað var um í síðasta pistli.
Síðasti pistill endaði á bátnum Lómi KE en það sést í hann á myndinni sem fylgir með þessum pistli. Lómur KE er nú nafn sem eldri Keflvíkingar og kannski fleiri ættu að kannast við því að árið 1963 eignaðist Brynjólfur hf. bát sem hét Lómur KE 101 og var sá bátur með því nafni til ársins 1973. Eftir það var enginn bátur sem hét Lómur KE.
Saga þessa báts endaði reyndar árið 1998 en þá hét báturinn Þorsteinn GK og strandaði við Krýsuvíkurberg eftir að hafa fengið netin í skrúfuna. Mannbjörg varð.
En að myndinni og það eru aðeins tveir bátar á henni. Sá til hægri er Björgin GK 108. Sá bátur var smíðaður í Póllandi árið 1990 og er einn af fáum plastbátum sem hafa verið smíðaðir í Póllandi. Hann kom til landsins árið 1993 og er sjö brúttótonn að stærð og um 9,9 metra langur. Þessi bátur hefur alla sína tíð verið gerður út utan við Suðurnesin og kom ekki suður fyrr en árið 2018 þegar hann fékk nafnið Björgvin GK. Hann var gerður út á strandveiðar frá Sandgerði 2018 og 2019 en hefur ekkert róið núna í ár.
Blái stálbáturinn er Hafnartindur II SH, þessi bátur hét Hafnartindur SH frá árinu 1993 og fram til ársins 2016, eða í 23 ár. Þessi bátur var smíðaður á Ísafirði árið 1988 og það er ansi merkilegt að báturinn á sér alls enga sögu á Suðurnesjum því hann hefur aldrei nokkurn tímann róið eða landað afla öll þessi ár í höfnum á Suðurnesjum. Bátnum hefur ekkert verið róið síðan í apríl árið 2017 er eldsvoði kom upp í bátnum og skemmdist allt fram í bátnum en vélin slapp.
Mjög merkilegt að finna bát sem aldrei hefur landað neinum afla á Suðurnesjum samt verið gerður út í 29 ár.