Aflafréttir: Október byrjar illa
Sandgerðisþemanu, sem var í síðustu pistlum, lýkur núna og vil ég byrja á þakka fyrir mig. Hef fengið ansi góð viðbrögð við þessum stuttu pistlum mínum um Guðmund Jónsson GK og Sjávarborgu GK.
Annars má segja að október byrji eiginlega frekar illa. Veiði bátanna hefur verið mjög dræm og meira að segja stóru línubátarnir hafa ekkert verið að fiska neitt að ráði. Það sem af er október er Fjölnir GK kominn í 165 tonn í tveimur róðrum og mest 87 tonn sem er varla hálf lest en fullfermi hjá Fjölni GK er hátt í 140 tonn. Sturla GK 137 tonn í þremur róðrum og mest 81 tonn í róðri. Páll Jónsson GK 136 tonn í tveimur og mest 75 tonn. Kristín GK 134 tonn í tveimur og mest 68 tonn. Sighvatur GK 98 tonn í einum róðri. Jóhanna Gísladóttir GK 97 tonn í einum. Þessir bátar eru allir að landa fyrir norðan og austan og eru megninu af aflanum ekið suður til Grindavíkur til vinnslu.
Minni línubátarnir hafa heldur ekki verið fiska neitt sem hægt er að hrópa húrra yfir. Margrét GK, sem er nýi báturinn í Sandgerði, er með 49 tonn í sjö róðrum og mest 17 tonn. Óli á Stað GK 40 með tonn í átta og mest aðeins 9,3 tonn. Auður Vésteins SU veiddi 33 tonn í sex róðrum. Vésteinn GK 32 tonn í sex. Geirfugl GK 25 tonn í sjö og Dóri GK 8,8 tonn í fjórum róðrum.
Það bar reyndar til tíðinda núna í vikunni þegar fyrsti minni línubáturinn kom suður til veiða. Það er Sævík GK, nýjasti bátur Vísis ehf. sem þeir eiga og gera út. Júlli skipstjóri lagði línuna fyrst í Röstinni, sem er á milli Reykjanesvita og Eldeyjar, og náði í fimm tonn. Síðan var hann með línuna undan Krýsuvíkurbjarginu og kom þar með samtals um átta tonn. Er þetta nokkuð gott því veiðin fyrir norðan og austan land hefur ekki verið það góð og hafa ber í huga að flutningskostnaður er mikill. Það nefndi einn skipstjóri við mig að fimm tonna afli sem er veiddur fyrir sunnan og landað til vinnslu þar jafngildir hátt í 6,5 tonna afla landað fyrir norðan eða austan.
Veiði netabátanna hefur líka verið mjög lítil. Maron GK hefur náð að kroppa í um 21 tonn í tíu róðrum eða rétt um tvö tonn í róðri. Halldór Afi GK 4,3 tonn í átta róðrum. Sunna Líf GK 3,1 tonn í fjórum.
Grímsnes GK, stærsti netabáturinn, var í slipp í byrjun október en er kominn á veiðar og hefur gengið brösuglega að finna þorskinn. Báturinn byrjaði á að landa í Njarðvík, fór þaðan á Snæfellsnes og landaði á Rifi um 2,1 tonni. Þaðan fór hann alla leið til Húsavíkur og var að reyna fyrir sér í Skjálfandaflóa og utanverðum Eyjafirði.
Enginn stór netabátur er að róa frá Norðurlandi nema í Grímsey en þar er Þorleifur EA. Hann er þó ekki nema um 70 tonna bátur, svo til samskonar og gamli Guðfinnur KE var.
Grímsnes GK var í fyrrahaust að veiða ufsa fyrir sunnan landið og gengu þær veiðar mjög vel en núna hefur leiguverð á ufsakvóta hækkað mjög mikið eða farið úr 20 krónur á kíló upp í um 50 krónur og veiðin á ufsanum fyrir sunnan landið var ekki eins góð núna í september 2019 eins og það var um haustið 2018.