Aflafréttir: Líf að færast á ný í hafnirnar á Suðurnesjum
Núna þegar þessi pistill kemur er hrygningarstoppinu 2021 lokið og mun því færast líf í hafnirnar hérna á Suðurnesjunum.
Nokkrir bátar hafa yfirgefið svæðið og t.d. eru allir Einhamarsbátarnir farnir norður til Siglufjarðar. Veiðin þar hefur nú ekkert verið neitt til að hrópa húrra fyrir. Vésteinn GK með 18,8 tonn í tveimur róðrum, Gísli Súrsson GK sautján tonn í tveimur og Auður Vésteins SU 12,8 tonn í tveimur róðrum. Öllum þorski frá bátunum hefur verið ekið til Grindavíkur og af þessum afla er þorskurinn um 30 tonn, öllum ekið suður með sjó.
Sandfell SU fór líka til Siglufjarðar og landaði þar 27 tonnum í þremur róðrum en öfugt við Einhamarsbátana þá er fiskinum frá Sandfelli SU ekið til Fáskrúðsfjarðar.
Reyndar var mjög góð veiði fram að stoppinu og t.d. fóru dragnótabátarnir ansi djúpt út eða út fyrir tólf mílurnar utan við Hafnaberg og fengu þar ansi góðan afla, t.d var Benni Sæm GK kominn með 134 tonn í sex róðrum, Siggi Bjarna GK var með 152 tonn í sjö og Sigurfari GK 160 tonn í sjö róðrum og mest 41 tonn í einni löndun.
Pálína Þórunn GK mokveiddi og landaði alls 415 tonnum í aðeins sex róðrum. Má geta þess að togarinn fékk um 240 tonn í fjórum róðrum á fjórum dögum, sem þýðir að hver túr var aðeins einn sólarhringur.
Nokkrir bátar hafa byrjað á grásleppuveiðum frá Grindavík og Sandgerði og veiðin hjá þeim hefur verið mjög góð.
Guðrún GK er aflahæst bátanna frá Suðurnesjum með 27 tonn í sex róðrum, landar í Sandgerði. Garpur RE í Grindavík er með 17,5 tonn í fjórum, Addi Afi GK í Sandgerði með þrettán tonn í fjórum, Alli GK í Grindavík með níu tonn í fjórum, Tryllir GK í Grindavík með sjö tonn í fimm og Guðrún Petrína GK í Sandgerði með 4,4 tonn í tveimur róðrum.
Núna eru ísfiskstogarar Nesfisks komnir norður á rækjuveiðar og landa á Siglufirði, rækjunni er ekið þaðan til Hvammstanga en fiskinum suður í Garðinn. Sóley Sigurjóns GK hefur landað 163 tonnum í þremur róðrum og þar af er rækja 86 tonn, Berglín GK var með 56 tonn í tveimur róðrum og þar af er rækja 35 tonn.
Maður reyndar veltir því fyrir sér af hverju þeir landa á Siglufirði þegar það er t.d. mun betri aðstaða og mun styttri og þægilegri vegir að Sauðárkróki því að vegirnir frá þjóðveginum, fram hjá Hofsósi, inn í Fljótin og þaðan að Strákagöngum eru vægast sagt mjög lélegir og allt of þröngir. Aftur á móti er vegurinn yfir Þverárfjallið til Sauðárkróks t.d. mun betri, nýrri og breiðari – og jú, munar ansi miklu í kílómetrum að aka til Siglufjarðar en til Sauðárkróks.
Gísli Reynisson