Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Aflafréttir: Hvað eru bátarnir að gera núna?
Föstudagur 22. maí 2020 kl. 10:51

Aflafréttir: Hvað eru bátarnir að gera núna?

Í þarsíðasta pistli var greint frá banni á grásleppuveiðum og að það kæmi mjög illa við útgerðir báta hérna á Suðurnesjum því þeir voru sumir bara rétt svo byrjaðir á veiðum.

En hvað eru bátarnir að gera núna? Lítum aðeins á það. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Svala Dís KE náði aðeins að fara í sjö róðra á grásleppunni en hefur síðan legið við bryggju, næst fer báturinn væntanlega á makrílveiðar.

Addi Afi GK landaði einni löndun í maí en var síðan hífður upp á bryggju í Sandgerði þar sem smá viðhaldi verður sinnt á bátnum. 

Guðrún Petrína GK landaði einu sinni grásleppu í maí en fór síðan einn róður á línu og landaði 4,8 tonnum í einni löndun. Bæði Addi Afi GK og Guðrún Petrína GK munu fara á makríl þegar þær veiðar hefjast.

Guðrún GK 96 landaði einni löndun í maí en útgerðaraðilinn sem á bátinn á annan bát sem líka heitir Guðrún GK 90 og hefur hann stundað handfæraveiðar á bátnum og fiskað mjög vel. Hann hefur landað tuttugu tonnum í sex róðum. 

Þó svo báðir bátarnir heiti Guðrún GK þá er nokkur munur á þeim. Guðrún GK 96 er smíðuð á Englandi árið 1982 og er 13,1 tonn af stærð og 11,5 metrar á lengd. Báturinn var lengst af á Akranesi, hét þar Særún AK og var með því nafni frá 1982 til ársins 2000. Hinn báturinn var smíðaður í Trefjum í Hafnarfirði og er af gerðinni Cleopatra 31L, hann er 8,3 tonn af stærð og 9,5 metrar á lengd. Sá bátur var fyrst í Hafnarfirði og hét þá Ösp HF en fór síðan til Bolungarvíkur, kom á Suðurnesin árið 2010 og hefur verið þar síðan, hét lengst af Bjarmi GK. 

Garpur RE landaði tvisvar í maí en hefur síðan legið við bryggju í Grindavík og ekkert farið á sjóinn til veiða,

Tryllir GK var fyrsti báturinn á Suðurnesjunum til þess að hefja veiðar á grásleppu á Suðurnesjum, báturinn landaði tvisvar í maí en hefur síðan legið við bryggju í Grindavík og ekkert róið.

Alli GK var eini báturinn sem réri á grásleppu frá Keflavík, báturinn fór í ansi langa siglingu því hann fór alla leið austur á Neskaupstað þar sem hann mun stunda línuveiðar í sumar. 

Eins og sést á þessari upptalningu þá hafa útgerðir þessara báta sem voru á grásleppuveiðum lítið stundað veiðar og þetta bann setti plön útgerða þessara báta í frekar mikið uppnám.

Fyrst talað var um grásleppunetaveiðar þá er rétt að kíkja á aðrar netaveiðar. Erling KE er kominn austur á Vopnafjörð þar sem hann mun stunda grálúðunetaveiðar í sumar fyrir Brim ehf., það fyrirtæki hét áður HB Grandi. Hefur Erling KE landað tvisvar um 30 tonnum alls.

Talandi um Erling KE þá er Halldór Jóhannesson, sem var t.d skipstjóri á línubátum í Grænlandi, skipstjórinn á bátnum núna. Skipstjórinn sem vanalega er með Erling KE heitir líka Halldór, kallaður Dóri, en hann er kominn á Bergvík GK að róa með Hafþóri og Hafþór hefur líka verið skipstjóri á Erling KE. Þeir félagar, Dóri og Hafþór, hafa fiskað ansi vel en þeir hafa verið með netin utan við Sandgerði í maí og eru komnir með um 60 tonn í þrettán róðrum, mest um sjö tonn í róðri. Kvótinn á Bergvík GK kemur, jú, hvaðan haldið þið? Frá Erlingi KE.