Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Aflafréttir: Hrun í Grindavík
Föstudagur 8. október 2021 kl. 06:26

Aflafréttir: Hrun í Grindavík

Þá er september mánuður búinn og veðurlega séð þá var frekar þungt fyrir minni bátana að sækja sjóinn. Lítum aðeins á hvernig hann var þessi mánuður.

Jú, eins og ég hef ansi oft skrifað um þá má segja mest sé að gera hjá þeim trukkabílstjórum sem sjá um að aka norður og austur til þess að sækja fiskinn sem bátarnir eru að landa þar og langmestu hluta af þeim afla er ekið til Grindavíkur. Það er þá að mestu afli sem línubátarnir landa. Auk þeirra eru fiskvinnslur í Keflavík, Garði og Sandgerði sem fá líka fisk sem er keyrður, en hann er þá að koma frá fiskmörkuðum víða um landið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Var þá engum afla landað í höfnum á Suðurnesjunum í september?

Jú, það var landað afla en til þess að gera sér betur grein fyrir þessu þá tók ég saman aflatölur frá því í september árið 2021 og bar það saman við september árið 2001. þetta eru ekki nema tuttugu ára munur – en þótt þetta sé ekki lengra en tuttugu ár, þá er samt sem áður sláandi munur á lönduðum afla.

Byrjun á heildinni. Í september árið 2001 var landað samtals 5.687 tonnum í höfnunum þremur. Tuttugu árum síðar var samtals 2.517 tonum landað. Þetta er um tæplega 60% minnkun á lönduðum afla. Reyndar þarf að hafa í huga að frystitogarar lönduðu í Grindavík bæði árin. Samtals 1.282 tonn í september árið 2001, og 1.357 tonn í september árið 2021. Það þýðir að bátaaflinn var 4.405 tonn árið 2001 og 1.160 tonn árið 2021, sem er hátt í 75% minnkun.

En skoðum bæina og byrjum á Grindavík:

Í september árið 2001 var landað alls 3.249 tonnum í 222 löndunum. Af þessum afla var frystitogaraafli 1.282 tonn og því var bátaafli 1.967 tonn. Í þeirri tölu er t.d. afli frá togurunum Sturlu GK og Þuríði Halldórsdóttir. Aftur á móti þegar horft er á tölur fyrir árið 2021 þá fyrst verður maður hissa því að landaður afli var 1.746 tonn, sem er nokkuð gott. Reyndar er inni í þeirri tölu 1.356 tonna afli frá frystitogurunum og því er bátaaflinn aðeins 391 tonn og landanir aðeins 28.

Þetta er ótrúlegar tölur og alveg óhætt að segja að algjört hrun er í lönduðum afla og fjölda landana í Grindavík á aðeins tuttugu árum. Á sama tíma er hátt í 2.400 tonnum af fiski ekið til Grindavíkur í september.

Sandgerði: Þar var árið 2001 landað alls 1.357 tonnum í 198 löndunum og í þeirri tölu eru t.d. afli frá Sóley Sigurjóns GK (eldri) og Berglínu GK. Árið 2021 var landað alls 544 tonnum í 76 róðrum og er það allt bátaafli. Hérna sést að höggið er langtum minna í Sandgerði heldur en í Grindavík.

Mest var þó um að vera í Keflavík því árið 2001 voru margir dragnótabátar að róa frá Keflavík og voru þá á veiðum í Faxaflóa, í buktinni eins og það kallaðist, og einnig voru mjög margir bátar á netaveiðum. Þarna voru t.d. Baldur KE, Benni Sæm GK gamli, Eyvindur KE, Njáll RE, Farsæll GK, Örn KE og Rúna RE. Örn KE var t.d. aflahæstur þarna með um 140 tonn sem öllu var landað í Keflavík enda var landaður afli í Keflavík árið 2001 alls 1.082 tonn í 306 löndunum. Mikið um að vera. Árið 2021 var landaður afli alls 227 tonn í 49 löndunum og kannski hvað merkilegast við það er að þessar 49 landanir komu að mestu frá bátum í eigu Hólmgríms, Marons GK og Halldórs Afa GK, auk þeirra landaði Bergvík GK líka ansi oft.

Já, svona lítur þessi samanburður út og eins og sést þá er Sandgerði kannski eini bærinn sem heldur fjölda landana uppi á meðan að algjör hrun er í Grindavík og það má geta þess að sá bátur sem hélt uppi löndunum í Grindavík var netabáturinn Hraunsvík GK sem á sextán landanir af þessum 28.