Aflafréttir: Færri bátar stunda bugtarveiðarnar
Þegar þessi pistill kemur út þá er nýtt fiskveiðiár komið og það þýðir að Faxaflóinn meðal annars opnast fyrir dragnótaveiðar. Veiðarnar í Faxaflóanum ganga undir nafninu bugtarveiðar.
Í ár eru bátarnir nú ekki margir. Þeir eru einungis þrír, Benni Sæm GK, Siggi Bjarna GK og síðan er það Aðalbjörg RE frá Reykjavík. Aðalbjörg RE á sér langa sögu í veiðum í Faxaflóanum og á sínum tíma voru tveir bátar sem voru hétu þessu nafni á veiðum í bugtinni, Aðalbjörg RE og Aðalbjörg II RE.
Þetta þýðir að aðeins tveir bátar frá Suðurnesjum stunda veiðar í Faxaflóa og er það mjög mikil fækkun á bátum sem voru á þessum veiðum. Sem dæmi fyrir 30 árum síðan í september árið 1990 þá voru eftirfarandi bátar á veiðum:
Í Keflavík voru Arnar KE, Baldur KE, Eyvindur KE, Farsæll GK, Haförn KE, Reykjaborg RE og Ægir Jóhannson ÞH. Í Reykjavík voru Rúna RE, Sæljón RE, Aðalbjörg II RE, Njáll RE, Aðalbjörg RE og Guðbjörg RE.
Annars núna í ágúst fóru dragnótabátarnir aðeins af stað. Benni Sæm GK réri oftast, fékk 83 tonn í þrettán róðrum, Aðalbjörg RE 63 tonn í sjö, Siggi Bjarna GK 38 tonn í sex róðrum og Sigurfari GK hóf veiðar undir lok ágúst og landaði 25 tonnum í tveimur róðrum. Allir bátarnir lönduðu í Sandgerði.
Netabátarnir hafa fiskað mjög vel í ágúst og voru þeir að veiðum í Faxaflóa. Maron GK er með 88 tonn í 21 róðri, Bergvík GK 55 tonn í fimmtán, Halldór Afi GK 47 tonn í 24, Sunna Líf GK 45 tonn í fjórtán og Hraunsvík GK 27 tonn í þrettán. Reyndar kom smá leki að Hraunsvík GK og var hann tekinn í slipp í Njarðvíkurslipp,
Eins og fram kemur komið í þessum pistlum þá hefur verið fjallað um Grímsnes GK en hann er kominn á ufsann og hefur gengið feikilega vel. Grímsnes GK er kominn í 111 tonn í sex róðrum og þar af landaði báturinn 88 tonn í aðeins fjórum róðrum og mest 28 tonn í einni löndun.
Erling KE er kominn í slippinn í Njarðvík en hann var á grálúðunetaveiðum í sumar og var á veiðum fyrir Brim HF, sem áður hét HB Grandi.
Togarinn Berglín GK er líka kominn í slippinn en þessi togari komst í fréttirnar þegar að áhöfn skipsins tók til sinna ráða og mótmælti því að Nesfiskur borgaði þeim það lágt verð fyrir rækjuna svo hún ákvað að sigla togaranum tómum til Njarðvíkur. Þar lá togarinn í hátt í fjórar vikur en fór svo á rækjuveiðar um miðjan júlí. Togarinn mun fara á botnfiskveiðar eftir slippinn, enda er skipið með úthlutað 1.434 tonna kvóta.
Aðeins út í kvótann. Sóley Sigurjóns GK er með 4.124 tonna kvóta, Pálína Þórunn GK 1.669 tonna kvóta, Erling KE 1.688 tonna kvóta, Sigurfari GK 2.927 tonna kvóta, Grímsnes GK 178 tonna kvóta og af því er 85 tonna rækjukvóti, Sturla GK, nýi togbáturinn sem Þorbjörn á með, 3.392 tonna kvóta og Jóhanna Gísladóttir GK 3.951 tonna kvóta.
Í meðfylgjandi myndbandi má sjá þegar netabáturinn Maron GK er að koma til hafnar í Njarðvík en þessi bátur er smíðaður árið 1955 og er einn af elstu stálbátunum á Íslandi í útgerð í dag.