Aflafréttir: Einmuna veðurblíða og fjöldi báta á sjó
Þá er hrygningarstoppinu lokið, bátarnir komnir á veiðar og veðurguðirnir hafa verið ansi góðir.
Einmuna blíða hefur verið sem hefur gert það að verkum að mjög mikill fjöldi báta er búinn að vera að róa og þá aðallega handfærabátar.
Byrjum samt á netabátunum. Eftir að veiðar gátu hafist aftur hafa netabátarnir, sem allir eru núna að landa í Keflavík og Njarðvík, ekki þurft að fara langt út því þeir hafa einfaldlega farið undir Vogastapann og áleiðis eftir Vatnsleysuströndinni. Reyndar hafa Þorsteinn ÞH og Maron GK farið þvert yfir Faxaflóann og verið með netin skammt frá Akranesi.
Eftir stoppið þá er t.d Erling KE með 54 tonn í þremur, Langanes GK 39 tonn í fjórum en það má geta þess að það er sitt hvor ísprósentan hjá bátunum, um 16% hjá Erlingi KE og um 20% hjá Langanesi GK. Maron GK með 41,6 tonn í fimm, Þorsteinn ÞH 40,4 tonn í fjórum.
Halldór Afi GK 22 tonn í fimm, Hraunsvík GK 16 tonn í fjórum, Bergvík GK 8,6 tonn í tveimur, en eins og áður hefur komið fram þá er einn maður á þeim báti. Sunna Líf GK 14,3 tonn í tveimur en báturinn landar í Hafnarfirði.
Núna eru tveir togarar frá Nesfiski farnir til rækjuveiða djúpt úti af Norðurlandinu, það eru Berglín GK og Sóley Sigurjóns GK en það gæti farið svo að það myndi annar bátur frá Suðurnesjum líka fara á rækjuveiðar, nánar um það síðar.
Pálína Þórunn GK hefur átt ansi góðan aprílmánuð og landað alls um 332 tonnum í fimm löndunum en báturinn var síðan settur í smá stopp og fór á sjóinn um það bil þegar að þessi pistill kemur i ykkar hendur.
Dragnótabátarnir hafa lítið róið eftir stoppið og Finnbjörn ÍS sem var í Sandgerði í mars er farinn vestur til Þingeyrar. Ísey EA hefur róið og fiskað nokkuð vel, landað um 41 tonni eftir stoppið í fjórum róðrum. Aðalbjörg RE hefur líka róið og landað átján tonnum í þremur róðrum.
Veðurblíðan undanfarna daga hefur gert það að verkum að mjög margir bátar hafa verið á handfæraveiðum rétt utan við Sandgerði eða eiginlega bara beint utan við innsiglingarbaujuna. Hafa hátt í 40 bátar verið að landa í Sandgerði og flestallir fiskað mjög vel. Lítum á nokkra.
Línubátarnir hafa fiskað ágætlega og núna hefur bátum fjölgað aðeins því að bátar hafa komið til Grindavíkur og Sandgerðis, t.d frá Bolungarvík og Snæfellsnesi. Sem dæmi kom Fríða Dagmar ÍS til Grindavíkur, þangað kom líka Jónína Brynja ÍS báðir frá Bolungarvík og til Sandgerðis kom t.d Stakkhamar SH en allir þessir bátar voru með línuna utan við Sandgerði. ÍS bátarnir lönduðu í Grindavík en Stakkhamar SH kom til Sandgerðis.
En það er stutt í 1. maí og þá mun strandveiðitímabilið hefjast – og fyrst ég minntist á handfærabátana þá var ég viðstaddur í Sandgerði þegar að um 40 bátar komu til löndunar og í myndbandi sem fylgir með má sjá 24 báta kom til hafnar og lífið í höfninni í blíðunni sem var.