Aflafréttir: Algjört mok
Febrúar er stysti mánuður ársins en að þessu sinni er hlaupár og því voru núna 29 dagar í febrúar … og þessi 29. dagur var heldur betur magnaður því mokveiði var hjá bátunum sem fóru á sjó þann dag, sérstaklega hjá línubátunum. Svo mikil var veiðin að sumir bátanna þurftu að fara í tvo róðra til þess að klára að draga línuna.
Sem dæmi var Sævík GK með 27,4 tonn sem fékst á 15 þúsund króka. Fyrst lönduðu þeir 15,3 tonnum sem fengust á 8.000 króka eða um nítján bala og er það um 800 kíló á bala. Fóru síðan aftur út, sóttu restina og komu með í land 12,1 tonn á sautján bala. Þetta er yfir 700 kíló á bala. Algjört mok!
Óli á Stað GK náði að koma með 25 tonn í einni löndun og fékkst þessi afli á 17 þúsund króka sem gerir um 40 bala, það er um 625 kíló á bala. Daðey GK var með 20,2 tonn sem fékkst á 15 þúsund króka eða um 36 bala og þurfti að fara tvær ferðir. Gísli Súrsson GK var með 27 tonn sem báturinn náði að koma með í einni löndun. Allir þessir bátar voru í Grindavík og voru með línuna þar fyrir utan.
Þó að febrúar hafi verið þetta stuttur þá var gríðarlega góð veiði hjá bátunum og má nefna að tveir stórir línubátar náðu því að fiska yfir 500 tonnin. Jóhanna Gísladóttir GK var með 530 tonn í fjórum róðrum og Sturla GK 538 tonn í fimm. Sighvatur GK 486 tonn í fjórum, Kristín GK 476 tonn í fimm, Valdimar GK 388 tonn í fimm og Fjölnir GK 350 tonn í þremur.
Þegar þetta er skrifað eru ekki allar aflatölur komnar í hús hjá minni línubátunum en þó er það á hreinu að Margrét GK náði yfir 200 tonnin, aflinn hjá bátnum um 217 tonn í átján róðrum og Óli á Stað GK er með um 200 tonnin. Sævík GK 178 tonn í sautján, Gísli Súrsson GK um 194 tonn, Daðey GK 158 tonn í sextán og Dúddi Gísla GK 120 tonn í fjórtán.
Sömuleiðis var hörkumánuður hjá netabátunum, fyrir utan það að Grímsnes GK féll úr leik, en Langanes GK kom í staðinn og samanlagður afli þessara tveggja báta var 167 tonn í fjórtán róðrum. Langanes GK var með 95 tonn í sjö og mest 25 tonn, Erling KE var með 388 tonn í átján og í þriðja sætið yfir landið. Tveir bátar frá Snæfellsnesi komust yfir 500 tonn í febrúar.
Maron GK var með 179 tonn í 23, Halldór Afi GK 66 tonn í sextán, Hraunsvík GK 62 tonn í fjórtán og Sunna Líf GK 53 tonn í tólf. Það má geta þess að þessir þrír bátar fækkuðu allir trossum og t.d má nefna að Hraunsvík GK var með fjórar trossur og kom með í land um níu tonn, deginum eftir var báturinn með þrjár trossur en var aftur með um níu tonn. Þorsteinn ÞH 49 tonn í sjö róðrum.
Dragnótaveiðin hresstist þegar leið á febrúar, Sigurfari GK var með 198 tonn í fimmtán og mest 33 tonn, Benni Sæm GK 179 tonn í sextán og mest 25 tonn, Siggi Bjarna GK 113 tonn í fjórtán, Ísey EA 86 tonn í ellefu en báturinn landaði mestum hluta af aflanum í Sandgerði og mest 18,5 tonn. Aðalbjörg RE 74 tonn í tíu.
Ekki má svo gleyma litlu línubátunum en Guðrún Petrína GK og Addi Afi GK áttu góðan mánuð þrátt fyrir að hafa ekki komist oft á sjóinn. Guðrún Petrína GK var með um 30 tonna afla í sjö róðrum og endaði á níu tonna löndun þann 29. febrúar. Addi Afi GK var með um 36 tonn í sjö róðrum og endaði aflahæstur báta að þrettán tonnum yfir allt landið.
Einn róðurinn hjá Adda Afa GK var mok og meira mok. Þeir fóru út með 32 bala en eftir að hafa dregið nítján bala var báturinn orðinn smekkfullur af fiski og fóru þeir Óskar skipstjóri og Unnar sem rær með honum í land með um átta tonn, fóru svo út aftur og kláruðu að draga, heildaraflinn alls 12,4 tonn sem er mok og ekkert nema mok.
Sem sé orð febrúar er tvímælalaust ... mok!
Marsmánuður er hafinn og hann gæti orðið rosalegur.
Þessi mynd var tekin í Grindavík 4. mars en mokveiði hefur verið undanfarið hjá bátum þar. VF-mynd/pket.