Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Aflafréttir: Að vinna í fiski er eins og að vinna í lottó
Föstudagur 6. nóvember 2020 kl. 07:50

Aflafréttir: Að vinna í fiski er eins og að vinna í lottó

Blessaður október búinn og við tók nóvember, maður hefði nú haldið að hlutirnir myndu lagast – en nei, þetta blessaða Covid hefur heldur betur sett strik í reikning hjá ansi mörgum.

Ferðaþjónustan alveg steindauð, ekkert um að vera. Mikið atvinnuleysi, sundlaugar lokaðar og pirringur í þjóðfélaginu eykst.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aftur á móti hefur sjávarútvegurinn haldið sjó á þessum tímum og að vinna í fiski í dag er bara eins og að vinna í lottó, því núna er þó margt um betra að komast í að vinna í fiski en að vera atvinnulaus heima og geta lítið sem ekkert gert.

Fiskvinnslufyrirtæki á Suðurnesjum standa nokkuð vel að vígi, þau eru kvótastór og hafa nokkuð öflugan flota en eru á sama skapi orði tæknivæddari og þurfa því færra starfsfólks en áður. 

Það er samt nokkuð áhugavert að skoða bæina og sjá þá að stærsti staðurinn á Suðurnesjum, Keflavík og Njarðvík sem mynda Reykjanesbæ, er má segja öll fiskvinnsla hrunin og eftir standa bara tvö fyrirtæki, Saltver ehf. sem gerir út Erling KE og Hólmgrímur Sigvaldason sem er með stóra saltfiskvinnslu úti á Vatnsnesi og gerir út fjóra báta.

Sömuleiðis er lítil sem enginn fiskvinnsla í Vogum en þar var í mörg ár fiskvinnslan Valdimar hf. sem átti meðal annars Ágúst Guðmundsson GK og Þuríði Halldórsdóttur GK. Það fyrirtæki rann saman við Þorbjörn ehf. og er fyrirtækið með smá starfsstöð í Vogum en það er þó ekkert í líkingu við það sem áður var þar. 

Skoðum aðeins Keflavík/Njarðvík nánar. Hvaða fiskvinnslur voru þar fyrir 35 árum síðan eða árið 1985. Jú, t.d Hraðfrystihús Keflavíkur hf. sem meðal annars gerði út togarana Aðalvík KE og Bergvík KE.

Hluta aflans sem Miðnesbátarnir og -togararnir veiddu og lönduðu í Sandgerði var ekið til vinnslu í Keflavík HF en eftir að Keflavík HF brann var aðeins lítill hluti af þeim fiski unnin í þeim hluta sem ekki brann.

Fiskverkun Arnar og Þorsteins Erlingssonar sem vann síld t.d. af Erni KE og Búrfelli KE, síðan var Saltver ehf. líka til og vann meðal annars af Búrfelli KE. 

Fiskverkun Hilmars og Odds í Keflavík gerði út tvo báta, Vatnsnes KE og Stafnes KE. Stafnes KE er bátur sem margir þekkja og skipstjórinn á honum, Oddur Sæmundsson, var mikill aflamaður og landsþekktur fyrir mikinn afla í net sem var það veiðarfæri sem hann notaði hvað mest.

Sjöstjarnan hf. var stórt fyrirtæki sem gerði t.d. út togarann Dagstjörnuna KE og var mjög stór í frystingu á loðnu yfir vertíðina. Þegar að Faxaflóinn opnaði fyrir veiðar dragnótabátanna þá var Sjöstjarnan eitt stærsta fyrirtækið sem tók á móti kola í vinnslu af bátunum, t.d. af Vikari Árnasyni KE og Reykjarborg RE svo dæmi séu tekin.

Vonin HF vann fisk af sínum eigin bát sem hét Vonin KE. 

Axel Pálsson hf. var meðal annars í rækju og af sínum eigin bátum sem hétu Jöfur KE og Jarl KE.

Baldur hf vann fisk af sínum báti, Baldri KE, ásamt fleiri bátum.

Happasæll sf. vann fisk af bátnum Happasæli KE en það nafn þekkja allir, báturinn er enn til í dag og heitir Grímsnes GK. 

Norðurvör hf. vann t.d. fisk af aflabátnum Bergþóri KE sem Magnús Þórarinsson var skipstjóri á. Sonur hans, Einar Magnússon, gerði síðan út bátinn Ósk KE í vel yfir tuttugu ár og var jafn fiskinn og faðir sinn ef þannig má orða hlutina.

Heimir hf. var stórt fyrirtæki og gerði út nokkra báta, t.d. Helga S KE og Heimir KE.

Fiskverkun Jóhannesar Jóhannssonar verkaði fisk t.d. af bátnum Jóhannes Jónsson KE.

Fiskverkun Hákonar E Reynalds var með Arnar KE og Þorstein KE.

Valfóður hf. var fiskimjölsverksmiðja.

Bás hf. Keflavík var t.d. með Svein Guðmundsson GK og Búðanes GK frá Grindavík ásamt fleiri bátum. 

Síðan var það Brynjólfur hf. sem var staðsett í Innri-Njarðvík og húsin standa þar enn en eru notuð undir geymslur undir húsbíla og tjaldvagna. Það fyrirtæki var nokkuð stórt en gerði þó enga báta út heldur var með báta í viðskiptum, t.d. Hraunsvík GK og Farsæl GK frá Grindavík og Sæljón RE frá Reykjavík ásamt því að vinna humar.

Eins og sést á þessu voru ansi mörg fiskvinnslufyrirtæki í Keflavík/Njarðvík fyrir 35 árum síðan en eru nú öll horfin nema Saltver og til viðbótar er, eins og áður segir, Hólmgrímur Sigvaldason sem merkilegt nokk er stærsti útgerðaraðilinn í Reykjanesbæ.

Gísli Reynisson
aflafrettir.is