Ævintýralegur túr Pálínu Þórunnar GK
Og áfram líður tíminn á þessum COVID-tímum og þegar þessi pistill kemur þá er komið hið árlega hrygningarstopp, sem mun vera í um tíu daga.
Þetta stopp mun þýða að svo til flestir bátanna hérna á Suðurnesjum munu stoppa. Þeir geta þó farið á sjóinn en þurfa að fara út fyrir tólf sjómílurnar, t.d togbátarnir og línubátarnir. Einu bátarnir sem mega veiða á þessum tíma er grásleppubátarnir. Enn sem komið er hafa fáir grásleppubátar hafið veiðar á Suðurnesjum. Tryllir GK í Grindavík hefur hafið veiðar og landað 6,5 tonnum í fjórum róðrum og er hann eini báturinn héðan frá Suðurnesjum sem hefur hafið veiðar og landað grásleppu.
Reyndar er Alli GK líka kominn á veiðar en afli frá honum var ekki kominn inn þegar að þessi pistill var skrifaður. Grásleppubátunum mun þó eitthvað fjölga á næstunni en á vertíðinni 2019 var Addi Afi GK t.d. á grásleppu og landaði 18,3 tonnum í apríl, Guðrún Petrína GK var með 17,4 tonn í ellefu, Tjúlla GK 17,4 tonn í fjórtán. Bergvík GK 17 tonn í ellefu, Guðrún GK 17 tonn í sextán og Svala Dís KE 5 tonn í fimm. Allir þessir bátar lönduðu í Sandgerði og voru með grásleppunetin þar fyrir utan.
Núna árið 2020 er staðan á þessum bátum þannig að Addi Afi GK og Guðrún Petrína GK eru ennþá á línu, reyndar er Addi Afi GK kominn með 9,1 tonn í þremur róðrum og er hæstur línubátanna að þrettán tonnum á landinu. Tjúlla GK er ennþá upp á landi í Sandgerði og er ekki kominn á flot. Bergvík GK hefur verið á þorsknetaveiðum. Guðrún GK og Svala Dís KE hafa ekkert hafið veiðar í ár.
Reyndar er það nú þannig að þessa fáu daga fram að stoppinu núna í apríl hefur veður ekki verið neitt sérstakt og því lítið verið róið. Dúddi Gísla GK hefur landað 17,3 tonn en aðeins komist í þrjá róðra. Margrét GK sömuleiðis aðeins komist í þrjá róðra og landað 25 tonn. Óli á Stað GK 42 tonn í sex og Sandfell SU 85 tonn í fimm. Reyndar er Sandfell SU farinn og er kominn austur á Fáskrúðsfjörð og er hann því fyrstur bátanna til þess að fara í burtu.
Dragnótaveiðin er búin að vera þokkaleg. Nesfisksbátarnir fóru allir í útilegu á Selvogsbankann og þar utan við og komu svo allir í land til Sandgerðis fyrir páskadag. Pálína Þórunn GK kom líka þangað eftir ansi ævintýralegan túr.
Þeir fóru á sjóinn klukkan 14 þann 9. apríl og komu til Sandgerðis þann 10. apríl klukkan 18. Þetta voru sem sé aðeins 28 klukkutímar höfn í höfn og af þessum tíma þá var báturinn aðeins fimmtán klukkutíma á veiðum og aflinn 65 tonn. Stærsta holið var níu tonn sem fékkst eftir aðeins 28 mínútna tog. Þetta er mok af ansi góðri gerð.
Ég var í Sandgerði þegar að Pálína Þórunn GK kom þangað með aflann og mátti sjá á bátnum að það var afli í honum því ansi var hann siginn að framan. Með í þessum pistli má sjá stutt myndband sem tekið var þegar að báturinn kom til hafnar með aflann.
Gísli Reynisson
aflafrettir.is