Að einblína á það jákvæða
Áhugi Samherja á atvinnuuppbyggingu (laxeldi á landi) í Helguvík ásamt þeim fréttum um að Landhelgisgæslan væri að skoða þann möguleika að skipafloti þeirra fengi aðstöðu hjá Reykjaneshöfn er kærkomin birta inn í annars frekar drungalegt lífið hérna fyrir sunnan um þessar mundir.
Ekkert í hendi þó en mjög jákvætt innlegg og vonandi verða þessi frábæru verkefni að veruleika í náinni framtíð, ekki veitir okkur af. Einnig má benda á aukin umsvif NATO á Keflavíkurflugvelli sem vonandi verða mun fleiri á næstunni. Ættum skilið að fá Wendy’s aftur heim og eflaust er ég ekki sá eini sem fyllist af gleði þegar ég heyri drunur í orrustuþotunum á nýjan leik. Fólkið fyrir norðan þurfti reyndar áfallahjálp en það er önnur umræða. Núna nefnilega, þegar skammdegið hellist yfir okkur af fullum þunga í bland við þetta Covid-ógeð sem ætlar engan endi að taka, þá er nauðsynlegt að sjá einhverjar jákvæðar fréttir. Oft er þó ansi erfitt að finna þær í fjölmiðlunum enda finnst manni þeir margir í keppni um neikvæðustu fréttirnar. Persónulega þá leita ég af jákvæðu fréttunum en lausnin fyrir mig er yfirleitt að skoða íþróttafréttirnar! Þær eru um þessar mundir stútfullar af jákvæðni, t.d. er íþróttafólkið okkar hérna fyrir sunnan að standa sig einstaklega vel og má þar nefna sem dæmi Keflvíkinginn Elías Má (spilar í Hollandi), Grindvíkinginn Jón Axel (spilar í Þýskalandi), Njarðvíkinginn Elvar Má (sem spilar í Litháen) og Hafnabúann úr Keflavík, Sveindísi Jane. Gríðarlega öflugt ungt fólk sem eru miklar fyrirmyndir og það er geggjað að sjá þau blómstra.
Atvinnulífið okkar og lífið sjálft hérna fyrir sunnan mun einnig blómstra á nýjan leik, það er algjörlega á hreinu. Vissulega eru erfiðir tímar núna og það reynir á þolinmæði okkar allra en þá verður maður að leita að því jákvæða í nærumhverfinu og gefa því meiri gaum en ella. Það hressir, bætir og kætir. Í rauninni aldrei jafn mikilvægt og núna. Ég er draumóramaður og ætla spá því að góðar fréttir varðandi bóluefni birtist í nóvember og þá mun sala á Þorrablótin hefjast í byrjun desember! Eigum við ekki bara að segja það. Það styttist í 2021, það verður betra en 2020, ég lofa.
Örvar Þór Kristjánsson.