Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Að drattast af stað
Jón Steinar Sæmundsson
Jón Steinar Sæmundsson skrifar
sunnudaginn 23. janúar 2022 kl. 06:31

Að drattast af stað

Það er við hæfi um áramót að horfa aðeins um öxl. Ég er ekkert frábrugðinn meirihluta landsmanna með þann sið að strengja nýársheit. Í desember 2020 ákvað ég að nú skyldi ég hreyfa mig meira á árinu 2021 en ég hafði gert áður og nú skyldi það gert skipulega og kerfisbundið. Markmið sett. Gengið skyldi á fjallið Þorbjörn hið minnsta einu sinni á viku á árinu. Já ég veit, ekki svo sem bratt markmið en Þorbjörn er brattur. Hætta öllu sykur- og brauðáti ásamt einhverju fleiru sem ég „man ekkert“ hvað var.

Ráðist var í gerð excelskjals þar sem allt yrði skráð sem við kæmi átakinu. Þess ber að geta að aldrei hafði undirritaður áður farið í sitt árvissa átak jafn skipulagður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hið nýja ár 2021 gekk í garð og framtakssemin ekkert að þvælast fyrir manni, skjalið góða beið óhreyft í tölvunni og gerði ekkert til að ýta við manni. Svo koma að því að kall þurfti að fara í reglubundið tjékk hjá lækni sem kvað upp sinn úrskurð. Þú ert allt of feitur! ,„Já, þurftir ekkert að segja mér það,“ sagði ég sposkur.

En, þá kom hann með „hægri krók“ sem lækkaði nú í mér rostann. Þú ert á frábærum millitíma með að ná þér í sykursýki 2! Þú þarft að létta þig og ekkert múður með það!

Þennan dag 26. febrúar síðastliðinn þegar ég labbaði út frá lækninum með skottið á milli lappanna mundi ég eftir ónotuðu excelskjalinu sem átti öllu að redda í hreyfingunni. Væri ekki tilvalið að starta því núna? Rauk heim og fyrstu ferð upp á fjallið en ekki verður sagt að maður hafi rokið upp þessa fyrstu ferð, móður og másandi með tilheyrandi stoppum til að kasta mæðinni. Með fleiri ferðum fækkaði stoppum og eftir nokkrar ferðir fór þetta að ganga viðstöðulaust.

Excelskjalið fór loksins að fyllast út og eftir standa á árinu sem leið 110 ferðir á fjallið, sem samanlagt gerðu 237 kílómetra. Einnig bættust við nokkrar óvæntar gosferðir sem teljast þó ekki með þar sem þær voru ekki inni á upphaflega planinu Ávinningurinn af þessu brölti eru 13 kíló týnd sem ég kæri mig ekkert um að finna aftur og sykursýkin á undanhaldi.

Með þessu vildi ég sagt hafa:

Maður þarf stundum bara gott spark í rassgatið!

ps.Excelskjal fyrir 2022 er í smíðum …