„Sumarið farið fyrir bý hjá ansi mörgum flugfélögum“
– segir Eiríka Guðrún Guðjónsdóttir sem starfar á Logan-flugvelli í Boston.
Eiríka Guðrún Guðjónsdóttir er stöðvarstjóri hjá verktaka á Logan-flugvelli í Boston sem m.a. sér um afgreiðslu og þjónustu flugvéla Icelandair. Hún er gift Jóhannesi Thorberg en þau hafa verið búsett í Saugus, sem er 29.000 manna bær, í um 20 mínútna fjarlægð frá Boston í 23 ár. Áður bjuggu þau í New York í átta ár. Eiríka og Jóhannes eiga tvö börn og tvö barnabörn.
„Eins og staðan er í dag þá er Icelandair eina flugfélagið sem er að fljúga hingað sem að ég þjónusta. Hin flugfélögin sem ég þjónusta hættu að fljúga í lok mars og byrja sennilega ekki að flúgja fyrr en um miðjan júní,“ segir Eiríka í samtali við Víkurfréttir.
Spurð hvernig hún sé að upplifa ástandið í kringum COVID-19 þá segir Eiríka að það hafi orðið mjög skrýtið ástand í byrjun og fólk hreinlega alveg misst sig. „Það hamstraði bæði matvörur og hreinlætisvörur. Það mynduðust langar raðir og matarskortur varð í sumum verslunum.“
– Hefurðu áhyggjur af ástandinu þar sem þú býrð?
„Já, ég verða að viðurkenna það að ég hef áhyggjur af dóttur minni, Söru Thorberg, en hún starfar á Carney Hospital, sem er fyrsta sjúkrahúsið hér í Bandaríkjunum sem er tekið undir COVID-19-sjúklinga.
– Hvaða áhrif hefur faraldurinn á þitt daglega líf?
„Ég er miklu meira heima enda er ég bara að þjónusta Icelandair. Ég baka miklu meira og elda meira en venjulega þar sem ég er alltaf heima á matmálstímum.“
– Hvernig eru dagarnir hjá þér núna?
„Ég vakna alltaf mjög snemma en ég er mikill morgunhani. Les íslensku blöðin og líka bandarísku blöðin. Svo fer ég yfir póstinn minn. Ég elda hádegismat handa fjölskyldunni og svo fer ég út á flugvöll og tek á móti Icelandair-vélinni, hún lendir hérna um tíu en var að lenda alltaf um kvöldamatarleytið.“
Finn mér alltaf einhver verkefni
Eiríka segist í sjálfu sér ekki hafa þurft að gera miklar breytingar á daglegu lífi sínu. Hún hefur í dag meiri tíma fyrir barnabörnin. „Í dag byrjar dagurinn fyrr og það er minna að gera hjá mér. Ég er nú svolítið ofvirk þannig að ég finn mér alltaf einhver verkefni. Núna erum við hjónin ásamt syni okkar, Ólafi Thorberg, að mála stofuna.“
Það séu hins vegar miklar breytingar í vinnunni þar sem breyta hafi þurft öllum vöktum hjá starfsfólki.
Hún segir útgöngubann ekki hafa áhrif á sig og sé heppin að hafa vinnu þar sem unnið sé í hópum sem taka á móti flugvélum. Eiríka segist hafa farið að taka COVID-19 alvarlega þegar Wuhan-héraði var lokað. Hún segist hafa fengið meiri upplýsingar um veiruna og alvarleika hennar úr íslenskum fjölmiðlum en þeim bandarísku.
Í dag segist hún bara umgangast starfsfólkið sitt og fjölskyldu. „Eftir vinnu fer ég beint heim og held mig heima. Þegar ég þarf að fara út í búð þá set ég á mig hanska og grímu,“ segir Eiríka. Hún segist fara einu sinni í viku í matvörubúð en þarf stundum að fara oftar. Þrátt fyrir COVID-19 hefur hún ekki notað netverslanir meira.
Ísland tók þessu mjög alvarlega
– Hefur þú borið saman aðgerðir stjórnvalda þar sem þú býrð við það sem er verið að gera heima á Íslandi?
„Það er ekki hægt að bera það saman. Ísland tók þessu mjög alvarlega og vil ég meina að þeir hafa verið á undan öðrum þjóðum hvað varðar skimun. Að hafa fengið Íslenska erfðagreiningu til liðs við sig tel ég að hafi skipt sköpum.“ Eiríka segir mikilvægast í dag að halda ró sinni og hreyfa sig reglulega en hreyfing skiptir svo miklu máli fyrir andlega heilsu. Spurð hvort það hafi komið til tals að fara til Íslands á meðan faraldurinn gangi yfir segir hún alls ekki. „Börnin mín og barnabörn búa hér en við höfum búið í USA í 31 ár. Hér er okkar heimili.“
– Ertu í miklum samskiptum við þitt fólk og vini heima á Íslandi núna? Meira en vanalega?
„Nei, ekkert meira en venjulega. Það hefur alltaf verið mikið samband en við erum samheldin fjölskylda og ég heyri í þeim á hverjum degi.“
– Hvað gerir þú ráð fyrir að ástandið muni vara lengi?
„Hvað varðar mína vinnu, flugið, þá held ég að sumarið sé farið fyrir bý hjá ansi mörgum flugfélögum. Ég býst ekki við að flugið fari ekki í reglulega starfsemi aftur fyrr en júlí eða jafnvel seinna. Það er bara mjög mikil óvissa í öllum flugheiminum.“
Hefur áhyggjur af dótturinni á sjúkrahúsinu
Að endingu spurðum við Eiríku hvernig aðrir fjölskyldumeðlimir séu að upplifa ástandið og hvort ótti sé til staðar. „Ég hef áhyggjur af dóttur minni í vinnunni á sjúkrahúsinu en ég veit að hún hefur líka áhyggjur. Maður heyrir stundum óttann hjá henni þegar hún er búin á vaktinni. Hún hefur líka áhyggjur á því að smita okkur og stelpurnar sínar sem að eru eins og tveggja ára. Maðurinn hennar vinnur einnig á sama spítala og hún. Maður reynir að stappa í hana stálinu en það er mjög mikið álag á henni í vinnunni,“ segir Eiríka Guðrún Guðjónsdóttir í samtali við Víkurfréttir frá Boston.