Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Ekkert skemmtilegra en að sjá fólk ganga héðan út þegar vel hefur tekist til“
Björg og Falur með starfsfólki sínu. Takið eftir græna veggnum á bak við þau. VF-myndir: Páll Ketilsson og Hilmar Bragi Bárðarson
Laugardagur 26. febrúar 2022 kl. 08:05

„Ekkert skemmtilegra en að sjá fólk ganga héðan út þegar vel hefur tekist til“

Björg Hafsteinsdóttir og Falur Daðason hafa rekið Sjúkraþjálfun Suðurnesja í tvo áratugi.

Sjúkraþjálfun Suðurnesja hefur verið starfrækt í Keflavík í áratugi. Björg Hafsteinsdóttir útskrifaðist sem löggiltur sjúkraþjálfari frá Háskóla Íslands árið 1995 og stofnaði þá sjúkraþjálfun í eigin nafni. Falur Helgi Daðason kom svo til liðs við Björgu árið 2000. Fyrst sem nemi en keypti sig svo inn í fyrirtækið árið 2002 þegar hann hafði sjálfur hlotið löggildingu í sjúkraþjálfun. Þar með varð til Sjúkraþjálfun Suðurnesja fyrir tuttugu árum síðan. Í dag er fyrirtækið til húsa í Hólmgarði 2, þar sem Vínbúðin var til húsa. Hjá fyrirtækinu starfa átta sjúkraþálfarar auk tveggja starfsmanna í móttöku. Daglegir notendur þjónustunnar eru um 200 manns.

Í tækjasalnum hjá Sjúkraþjálfun Suðurnesja.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig byrjaði þetta allt?

„Ég útskrifaðist úr Háskóla Íslands árið 1995 og opnaði stofu í 100 fermetrum á Faxabraut 2 sem hét Sjúkraþjálfun Bjargar. Þarna voru bara fjórir bekkir og þetta var bara lítið og kósý. Þarna var lágmarks tækjabúnaður sem þurfti að hafa til að mega opna stofu. Falur kemur svo til mín sem nemi í febrúar árið 2000 og hefur svo störf á stofunni í júní sama ár,“ segir Björg.

Falur keypti sig inn í fyrirtækið hjá Björgu árið 2002 og þá var að hans sögn ýmislegt farið að breytast í sjúkraþjálfun. „Fljótlega voru gerðar miklu stífari kröfur á allan aðbúnað þannig að við máttum ekki vera lengur í þessum 100 fermetrum á Faxabrautinni og vorum eiginlega þvinguð í það að stækka. Við keyptum þá húsnæði að Hafnargötu 15 í Keflavík árið 2003 og stækkum það svo 2005. Árið 2018 keyptum við svo þetta glæsilega húsnæði í Hólmgarði,“ segir Falur.

Húsnæðið í Hólmgarði var bara einn stór geimur. Þar hafði síðast verið vínbúð en húsnæðið staðið autt í tólf ár. Þau Björg og Falur fengu Jón Stefán Einarsson, arkitekt, til að teikna upp stofuna og útkoman er glæsileg, viðmótið á að vera hlýlegt þegar komið er inn og andinn góður.

Hafsteinn Leó á bekknum hjá Björgu Hafsteinsdóttur.

Mikil þróun í sjúkraþjálfun

Hvað eruð þið að gera hérna hjá Sjúkraþjálfun Suðurnesja?

„Við erum að sinna fólki sem ýmist hefur farið í aðgerðir, lent í slysum, er alvarlega veikt eða er með einhver vandamál sem geta verið af mjög mörgum toga. Hingað kemur líka fullt af börnum og við erum að sinna skjólstæðingum frá tveggja mánaða aldri og alveg upp úr,“ segir Björg.

Falur segir að starfsemin hafi breyst mikið og þróast í gegnum árin.

„Við byrjuðum í því að vera nuddarar. Þegar ég er að byrja árið 2000 er þetta mikið nudd. Núna erum við mikið með taugasjúklinga, með barnasjúkraþjálfun og þá koma íþróttamenn mikið hingað inn. Svo eru það ýmiskonar sjúkdómar eins og heilablóðföll eða vinnuslys. Það er það sem við sinnum helst í dag,“ segir Falur og bætir við: „Þú nefndir það að þú hefðir komið í þetta húsnæði oft á árum áður og margir hafa gert það og það var góður andi, vínandi. Við höfum reynt að halda þessum skemmtilega anda. Það er alveg gaman að koma hingað og við teljum það mikilvægt að fólki finnist gaman að koma hingað í sjúkraþjálfun. Koma í æfingar og hitta fólk. Það myndast vinskapur hérna, þannig að við erum nokkuð ánægð með hvernig þessi andi er hérna.“

Hvað með árangurinn, það er hann sem skiptir máli og fólk kemur hingað til að fá hjálp við meinum.

„Það skiptir máli að við séum að hjálpa fólki og við gerum okkur líka grein fyrir því að við getum ekki hjálpað öllum. Við leggjum mikið uppúr því að við viljum kynnast fólkinu. Það er mikilvægt í meðferðinni að kynnast fólki, við hvað það er að starfa og hverjir eru fjölskylduhagir. Það eru oft persónuleg og viðkvæm mál. Þetta er svo rosalega fjölbreytt hvernig hver einstaklingur er og hvert vandamálið er. Það þarf alltaf að greina og meta hvert fyrir sig.

Það sem við viljum gera er að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. Við erum að reyna að koma fólki af stað, koma því í æfingar, hvetja til hreyfingar og við erum oft töluverðir sálfræðingar í lífi fólks,“ segir Björg og Falur bætir við: „Það sem gefur þessu starfi gildi, og er alveg ofboðslega gaman í þessu, er þegar það gengur vel og þegar við sjáum fólk ganga héðan út þegar vel hefur tekist til. Það er ekkert skemmtilegra en það.“

Falur Helgi Daðason og Lilja Karlsdóttir á bekknum.

Hjálpum fólki að hjálpa sér sjálft

Við sjáum marga hér í æfingum í tækjasal. Er það hluti af endurhæfingunni?

„Ég get sagt að við erum í dag 80% inni í sal í æfingum. Við hjálpum fólki að byrja á sinni hreyfingu sjálft. Þaðan getur það svo farið út í lífið og haldið áfram að hreyfa sig. Það er það sem á endanum kemur fólki áfram,“ segir Falur.

Hvað er þetta stór hópur sem kemur til ykkar að jafnaði á hverjum degi?

„Það eru um 200 manns að sækja hingað þjónustu á hverjum degi með fólki sem kemur hingað í æfingasal án þess að vera að koma til okkar sjúkraþjálfaranna. Það er mikil umferð og margir að fara í gegnum salinn og einnig til okkar á bekk líka. Það er mikið fjör hérna alla daga,“ segir Björg.

Aðspurð um hvernig ferlið gengur þetta fyrir sig þegar einstaklingur kemur og þarf að fá bót meina sinna segir Björg:

„Ferlið er þannig að þú þarft að fá beiðni frá lækni. Það er lykilatriði. Þá er læknir búinn að greina hvað er að. Svo kemur viðkomandi til okkar. Við erum með forgangshópa og tökum ákveðna hópa sem þarf að sinna fremur en aðra. Við metum viðkomandi og tökum niður sögu og skoðum við komandi. Því miður þá náum við ekki að sinna næstum því öllum sem til okkar leita. Núna eru 300 manns á biðlista hjá okkur. Við erum með forgangshópa. Þar er fólk sem hefur lent í slysum eða er að koma úr aðgerðum. Einnig erfiðir taugasjúkdómar og alvarleg veikindi og svo eru börn. Það eru þessir fimm hópar sem eru í forgangi.“

Guðmundur Hermannsson er einn ánægðra viðskiptavina.

Er hægt að bregðast við þessu Falur? Getið þið fengið fleiri sjúkraþjálfara í vinnu?

„Það vantar sjúkraþjálfara. Við fáum tvo sjúkraþjálfara í sumar en á móti er ein að fara í fæðingarorlof á sama tíma. Því miður getum við bara sinnt ákveðnum fjölda og ekki bætt endalaust á okkur eins og við myndum vilja. Við þurfum að forgangsraða og metum forgangshópinn út frá beiðnum frá læknum.“

Hver er staðan á menntun sjúkraþjálfara?

„Þetta er fimm ára háskólanám til meistaragráðu í sjúkraþjálfun. Um leið og fólk hefur útskrifast úr þessu námi þá getur það farið að vinna, hvort sem er á sjúkrahúsum eða á æfingastofum.“

Tölvur og snjalltæki valda axlarmeini

Í dag eru axlarmein algeng viðfangsefni sjúkraþjálfara og það er meðal annars um að kenna líkamsstöðu við notkun á tölvum og snjalltækjum. Einnig sjá þau Björg og Falur mikla aukningu í komum fólks eftir aðgerðir á öxl, bæði stórar og smáar. Þá er mikil aukning í tilvísunum til sjúkraþjálfara vegna gerviliðaaðgerða og segja þau að það séu alltaf einhverjir í salnum hjá þeim sem séu nýbúnir í slíkum aðgerðum.

„Við sjáum fólk oft áður en það fer í þessar liðskiptiaðgerðir og þær eru ótrúleg bót fyrir fólk. Í 95% tilvika ganga þessar aðgerðir mjög vel og auka lífsgæði hjá fólkinu og það er gaman að sjá það gerast,“ segir Björg og Falur bætir við: „Læknar eru orðnir svo færir í þessum aðgerðum og lífsgæði fólks aukast við þessar aðgerðir.“

Langaði alltaf að læra á líkamann

Þau Björg og Falur tengjast mjög íþróttageiranum í Reykjanesbæ. Björg var ein besta körfuknattleikskona landsins á sínum tíma með Keflavík. Þegar Björg er spurð út í það hvort þátttaka hennar í íþróttum hafi leitt hana út í sjúkraþjálfaranámið, þá játar hún því.

„Mig langaði alltaf að læra á líkamann þegar ég var yngri og þessi tengsl við íþróttirnar, að setja á bekknum með sjúkraþjálfara, hafði mjög mikið að segja að ég valdi að fara í þetta nám,“ segir Björg.

Saknar þú ekki keppninnar? Ég veit að þú ert komin yfir körfuboltaaldurinn en þetta var skemmtilegur tími í Keflavík.

„Alveg svakalega skemmtilegur tími. Það eru margar skemmtilegar minningar og margir vinir manns í dag.“

Björg á dótturina Telmu sem er í körfuboltanum í dag. Hún spilar um þessar mundir í Bandaríkjunum. Björg segist lítið geta kennt henni, hún sé orðin miklu betri en mamma sín var. „Hún sér alveg um þetta sjálf. Ég hvet hana bara áfram,“ segir Björg.

Caption

Að hefja 23. tímabilið sem sjúkraþjálfari Keflavíkur

Falur er að byrja sitt 23. tímabil sem sjúkraþjálfari Keflavíkurliðsins í knattspyrnu. Hann var á tímabili líka með körfuknattleikslið Keflavíkur.

„Þetta er alveg ofboðslega gaman og í raun ástæðan fyrir því að ég fór að læra þetta, til að geta verið með í íþróttum áfram. Ég var kannski ekki nógu góður til að fara að spila íþróttir upp í meistaraflokkana en í gegnum starf sjúkraþjálfarans sá ég tengingu til að geta verið með. Það að vera á bekknum með liði og vera hluti af hóp er bara ofboðslega skemmtilegt. Ég mæli með þessu fyrir unga sjúkraþjálfara. Þetta er mikil vinna en er líka rosalega gaman. Nú erum við Gunnar Ástráðsson, sem vinnur hérna hjá okkur, báðir með liðið og það hjálpar manni að komast aðeins frá, því það er mikil binding að vera sjúkraþjálfari knattspyrnuliðs,“ segir Falur.

Þegar þú hefur verið sjúkraþjálfari knattspyrnuliðs í tvo áratugi er ljóst að um breytingu hjá íþróttafólki hefur verið?

„Það er mikil breyting. Í dag eru menn í töluvert betra formi. Meiðsli eru líka öðruvísi. Það er minna af vöðvameiðslum en meira af meiðslum vegna tæklinga, sem eru þá erfið meiðsli. Höfuðmeiðsli eru líka algengari sem er vegna þess að það er meiri harka í íþróttum en áður. Ég hef verið að fylgjast með frá árinu 1999 og leikmenn eru í betra formi í dag. Þjálfunin er betri í dag og menn eru að fá meira greitt sem leikmenn í dag en fyrir tuttugu árum. Sjúkraþjálfunin er líka orðin betri og þetta tengist saman. Fræðin eru orðin betri.“

Liverpool aðalliðið

Íþróttir er til umræðu í Sjúkraþjálfun Suðurnesja alla daga. Enski boltinn er til umræðu og allir hafa sterkar skoðanir á honum. „Við erum öll svo góðir hliðarþjálfarar, vitum allt og kunnum þetta allt,“ segir Björg og hlær. „Allir sem hafa áhuga á íþróttum verða að hafa skoðun á þeim og við höfum hana,“ bætir hún við. Á Sjúkraþjálfun Suðurnesja er Liverpool aðalliðið en hin fá að fljóta með,“ segja þau Björg og Falur að endingu.