„Yst glitrar“
Heimir Björgúlfsson opnar sýninguna „yst glitrar“ föstudaginn 23. júní n.k. í Suðsuðvestur að Hafnargötu 22 í Reykjanesbæ. Opnunin verður kl. 21:00 og mun sýningin standa frá 24. júní – 16. júlí. Opið verður fimmtudaga og föstudaga frá kl. 16 – 18 og sunnudaga frá kl. 14. – 17.
Gildi almenns eðlis eru höfð í hávegum á þessari einkasýningu Heimis Björgúlfssonar sem er hans fimmta hér á landi. Að allt eigi sér hliðstæðu í hlaupkenndu efni séð með auga almenns eðlis, eða almenna eðlið sem síðan gildi í hlaupkenndu efninu. Þessu má velta fyrir sér endalaust eins og að illt er gott, eða upprunalega „evil is good“ sem og listamaðurinn skrifaði með tússpenna á jakkaermi í lok núnda áratugar síðustu aldar við
mikinn fögnuð viðstaddra. „Evil is good” hefur verið notað sem slagorð eða jafnvel aðlagað að herópi, nokkurskonar stríðsöskri, allar götur síðan.
Sjálfur segir listamaðurinn að allir hlutir glitri, jafnvel hið hlaupkennda, það
þurfi bara að líta betur til að sjá það og ekki endilega vera að leita að sjálfu glitrinu því það sýnir sig sjálft. Heimir Björgúlfsson hefur nýlega verið með einkasýningar í ZINGERpresents Gallery í Tilburg, Hollandi og De Branderij í Antwerpen, Belgíu. Hann býr og starfar milli Los Angeles og Amsterdam.
Nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni www.sudsudvestur.is