Yngsti þátttakandinn rúmlega fjögurra mánaða!
Fjölmenni var í gönguferð um Ketilstíg á laugardaginn með Sigrúnu Jónsdóttir Franklin leiðsögumanni. Gangan var önnur í röð þeirra menningar og sögutengdra gönguferða sem Ferðamálasamtök Suðurnesja og SJF menningarmiðlun bjóða upp á í maí.
Hátt í fimmtíu manns mættu í gönguna og var yngsti þátttakandinn aðeins
fjögurra og hálfs mánaða gamall og unni hann sér vel í burðarpokanum hjá móður sinni. Þessi góða þátttaka er eflaust til marks um síaukinn útivistaráhuga almennings.
Ketilsstígur er hluti gamallar þjóðleiðar milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa staðið fyrir því að láta stika leiðina. Genginn var hluti af leiðinni frá Móhálsadal, um Ketilinn í vestanverðum Sveifluhálsi og yfir hálsinn framhjá Arnavatni, niður á Seltún og síðan að Sveinshúsi ofan við Gestsstaðavatn. Svæðið býr yfir kyngimagnaðri náttúru, minjum og sögum.
Ellert Grétarsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var með í för og má sjá svipmyndir úr göngunni í ljósmyndasafninu hér á vefnum. Athugið að myndirnar birtast í öfugari röð.
Mynd/elg