Yngri bróðir fermdist á undanþágu
-segir Eygló Alexandersdóttir sem fékk „Baby Doll“ -náttföt í fermingargjöf
„Ég var fermd 20. maí árið 1962 frá Keflavíkurkirkju af séra Birni Jónssyni. Fermingarhópurinn var nokkuð fjölmennur og þennan sama dag fermdist líka Gunnar bróðir minn sem er ári yngri en það þekktist á þessum árum að veita undanþágu fyrir yngri systkini að fermast ári á undan ef ástæða þótti til,“ segir Eygló Alexandersdóttir þegar hún rifjar upp fermingardaginn sinn.
Mættum einu sinni í viku í fermingarfræðslu
„Fermingarundirbúningur var mæting einu sinni í viku um veturinn til séra Björns og þurftum við að læra utanbókar trúarjátninguna og eitt vers sem hver og einn valdi sér að fara með, stóðum við þá fyrir framan prestinn og man ég vel ennþá mitt vers: „Víst ertu Jesús kóngur klár, kóngur dýrðar um eilíf ár, kóngur englanna, kóngur vor, kóngur almættis tignarstór“.“
Hárið var mikið túberað
Hjá Eygló voru fermingarfötin kjóll sem var pantaður úr amerískum lista af konu sem hún var barnapía hjá. „Ég fékk tvenna skó, aðra sléttbotna til að nota við fermingarkyrtilinn í kirkjunni og háhælaða skó til að vera í veislunni og man ég að þeir voru ekki þægilegir. Einnig fékk ég kápu sem var keypt í versluninni Eddu á Vatnsnestorgi í Keflavík. Hárgreiðslan var gerð á stofu sem var í Miðtúni og man ég ekki hvort rúllur voru settar í mig daginn áður en mér þykir það líklegt því á þessum árum var oft sofið með rúllur í hárinu. Hárið var mikið túberað og spöng notuð sem hárskraut.“
Baby Doll-náttföt
Veislan var fjölmenn og haldin í Tjarnarlundi með fjölskyldu og vinum. „Ég fékk svefnbekk frá foreldrum mínum í fermingargjöf, einnig fékk ég skartgripi, „Baby Doll“-náttföt, sem voru vinsæl fermingargjöf, og peninga. Ég fékk mörg fermingarskeyti og stundum voru líka peningar sendir með skátaskeytunum. Svona var þetta fyrir 59 árum á fermingardegi mínum.“