Vorganga fyrir alla fjölskylduna á mæðradaginn
Styrktarfélagið Göngum saman efnir til vorgöngu fyrir alla fjölskylduna víða um land á mæðradaginn, sunnudaginn 13. maí kl. 11. Í Reykjanesbæ verður gengið frá Íþróttaakademíunni og verða tvær vegalengdir í boði, rúmir 2 km og rúmir 5 km. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi ganga fer fram í Reykjanesbæ og hvetjum við ALLA til að mæta.
Gangan er gjaldfrjáls en göngufólki gefst kostur á að styrkja rannsóknir á brjóstakrabbameini, með frjálsum framlögum eða með því að festa kaup á vörum sem hafa verið hannaðar fyrir Göngum saman og má nefna Mundaboli, buff, armbönd ofl.
Þá verða til sölu kaffi og brjóstabollur að göngu lokinni og andvirði þeirrar sölu rennur óskertur til Göngum saman.
Myndin var tekin í Krossmóa á föstudaginn þegar vorgangan var kynnt fyrir fólki. VF-mynd: Hilmar Bragi