Volgur bjór í bakpoka
Gunnar Hörður Garðarsson er brottfluttur Garðbúi, áhugamaður um ævintýri, pólitík og bananabrauð. Hann er verðandi foreldri, búsettur í Brussel og starfar sem upplýsingafulltrúi hjá Eftirlitsstofnun EFTA.
Hvað ætlar þú að gera um Verslunarmannahelgina?
„Það fær að koma í ljós, engin plön. Ég verð í Brussel um Versló, fjarri fjölskyldu og flestum vinunum. Ef það rignir ekki mikið fer ég kannski í næsta almenningsgarð með Þjóðhátíðar Spotify-playlista í eyrunum og ímynda mér að ég sé í Eyjum. Eftir á að hyggja er kannski meiri nostalgía í því ef það rignir hressilega.“
Hver er eftirminnilegasta Verslunarmannahelgin þín?
„Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 2014. Virkilega góð helgi sem Perla, unnusta mín, og ég áttum þar. Gistum tvö í litlum sendiferðabíl og skemmtum okkur gífurlega vel með góðum vinum í eyjum.“
Hvað finnst þér mikilvægt að hafa um Verslunarmannahelgina?
„Það er algjört möst fyrir mig að fara í 66° norður úlpu sem ég keypti á útsölu fyrir mörgum árum. Að vera í henni og drekka volgan flatan Tuborg sem hefur verið of lengi í bakpoka, möst. Skemmtið ykkur vel um helgina. Hugsið vel um náunga ykkar og ekki beita ofbeldi.