Völdu sér ís saman
Gott samstarf lögreglu og slökkviliðs á Suðurnesjum.
Samstarf lögreglu og slökkviliðs er oft mjög náið og vinna hóparnir mikið saman að alls kyns verkefnum sem oft og tíðum krefjast mikils af báðum aðilum. Á Fésbókarsíðu Lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að í fyrrakvöld hafi kom upp krefjandi verkefni þegar Ísbíllinn kom akandi að slökkvistöðinni í Reykjanesbæ. Bregðast hafi þurft skjótt við og leysa verkefnið [sem væntanlega var að velja saman ís]. „Ekki var að spyrja að okkar fólki sem leysti þetta verkefni á mettíma,“ segir á síðunni.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur nú starfrækt síðu á samskiptamiðlinum Facebook um nær tveggja ára skeið. Tilgangurinn er að auka og efla tengsl lögreglu við samfélagið með miðlun upplýsinga. Skv. ársskýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum er almenn ánægja með síðuna bæði meðal almennings og innan lögreglunnar og fer fjöldi fylgjenda hennar sífellt vaxandi. Þar eru settar inn almennar upplýsingar auk þess sem hún er vettvangur ábendinga og athugasemda, bæði frá lögreglu og til hennar.
Síðunni er stýrt af breiðum hópi lögreglumanna og er reynt eftir fremsta megni að svara fyrirspurnum um leið og þær berast. Einnig er leitast við að hafa síðuna með jákvæðum formerkjum og er mikið lagt í myndbirtingar úr daglegu starfi lögreglunnar þar sem ýmsu gagnlegu og skemmtilegu er miðlað til hinna fjölmörgu lesenda hennar.