Vogar: Fjölskyldudagurinn á laugardaginn
Hinn árlegi Fjölskyldudagur Sveitarfélagsins Voga verður haldinn næstkomandi laugardag. Hátíð þessi hefur verið haldin undanfarin 10 ár og vaxið ár frá ári.
Markmið hátíðarinnar er að bæjarbúar skemmti sér saman. Fjölskyldudagurinn hefur reynst gott tækifæri til að hrista saman nýja sem gamla Vogamenn og Strandaringa og eiga saman góðan dag.
Fjölskyldudagurinn stendur yfir frá morgni til kvölds með þéttskipaðri og fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Á dagskránni er m.a. að finna dorgveiðikeppni, Vogaheimsmet í vatnsbyssustríði verður sett, kassabílarallý, risamylla, leiktæki, handverksmarkaður, ratleikur fjölskyldunnar,listasmiðja og margt fleira skemmtilegt.??
Klukkan 19 hefst Hverfagrillið. Bænum er skipt í þrjú hverfi og eru íbúar hvattir til að koma út og grilla með nágrönnum sínum.
Vakin er athygli á því að bannað verður að vera með hunda á aðalsvæðinu í Aragerði á Fjölskyldudaginn.
Ennfremur er áréttað að Fjölskyldudagurinn er dagur fjölskyldunnar og ætti því að vera áfengis- og vímuefnalaus.
Allar nánari upplýsingar og dagskrá er hægt að nálgast á vef sveitarfélagsins á www.vogar.is
Mynd: Lítil hnáta í sínu fínasta pússi á bæjarhátíð Vogamanna í fyrra. VF-mynd: elg