Vöfflukaffi allar helgar í húsi Unu
Hollvinir Unu Guðmundsdóttur frá Sjólyst í Garði bjóða til vöfflukaffis allar helgar yfir sumarmánuðina í Sjólyst í Garði, sem margir kalla einnig Unuhús. Þar er heitt á könnunni laugardaga og sunnudaga kl. 14–17 en um komandi helgi, á Vitadögum, verður opið frá kl. 13 til 17 laugardag og sunnudag. Tónlistarfólk frá tónlistarskólanum í Garði er væntanlegt báða dagana og verður með tónlistarflutning í þessu hlýlega húsi í Gerðum í Garði.
Ásta Óskarsdóttir, formaður Hollvinafélags Unu Guðmundsdóttur, sagði að Unuhús/Sjólyst hafi verið vel sótt í sumar og gestir komið frá öllum landshornum, austan af fjörðum, að vestan og norðan. Margir sem koma hafa lesið sig til um Unu Guðmundsdóttir og þekkja til sögu hennar. Í vetur verður svo opið fyrir hópa en upplýsingar má nálgast á fésbókarsíðu Hollvina Unu Guðmundsdóttir, „Unuhús/Sjólyst í Garðinum-minjasafn“.
Völva Suðurnesja
Það er áhugavert að nýta sér nýjustu gervigreindartækni og við spurðum því ChatGPT út í Unu Guðmundsdóttur.
„Una Guðmundsdóttir, oft kölluð „Völva Suðurnesja,“ fæddist 18. nóvember 1894 í Garði á Reykjanesskaga. Hún ólst upp í Sjólyst í Garði og bjó þar mestan hluta ævi sinnar. Frá unga aldri var hún þekkt fyrir sérstaka andlega hæfileika og varð fljótlega kunn spákona á Suðurnesjum. Hún hafði orð á sér fyrir að geta spáð fyrir um framtíðina, og leitaði fólk víða að til hennar í von um ráðgjöf og leiðsögn.
Una var rómuð fyrir innsæi sitt og var sérstaklega virt á sínum heimaslóðum. Hún var oft kölluð „Völva Suðurnesja“ vegna þess hversu nákvæmar spár hennar voru taldar vera. Þrátt fyrir að hún væri án formlegrar menntunar í spáspeki, þróaði hún með sér mikla reynslu og þekkingu á sviði andlegra málefna. Hún bjó yfir miklum lífskrafti og þrautseigju, og náði að sinna þessum hæfileikum sínum allt til dauðadags.
Una Guðmundsdóttir lést 4. október 1978, 83 ára gömul. Hennar er minnst fyrir hlutverk sitt sem völva og fyrir að hafa haft djúp áhrif á þá sem leituðu til hennar á erfiðum tímum. Hún lifir áfram í minningum fólks sem hafði trú á hæfileikum hennar.“ Svo mörg voru þau orð.
Opið allar helgar út september
Í Unuhúsi/Sjólyst verður opið allar helgar út september. Þar er hægt að fræðast um Unu og skoða litla fallega húsið hennar sem hefur verið gert upp af mikilli natni.
Bæjarfélagið stýrði og kostaði endurbygginguna en Hollvinafélagið studdi vel við með öflun styrkja og var með i ráðum. Arkitekt framkvæmdanna við húsið var Magnús Skúlason en byggingameistari var Ásgeir Kjartansson sem vann verkið ásamt syni sínum Bjarka sem einnig er byggingameistari. Sigurður H. Guðjónsson, húsasmíðameistari í Sandgerði smíðaði alla glugga í húsið og gaf hann sína ómetanlegu vinnu. Hann smíðaði einnig útidyrahurðirnar. Verkefnið hefur einnig notið stuðnings Húsfriðunarsjóðs og Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja ásamt styrkja frá ýmsum einstaklingum. Á afmælisdegi Unu 2020 var endurbótum á Sjólyst lokið og fékk Hollvinafélagið húsið afhent þann dag til varðveislu og reksturs.