Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vistvænar og vandaðar vörur úr fiskleðri
Guðlaug Hulda Tindskard er eigandi og stofnandi AtlantikH en hannar einnig allar vörurnar.
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
miðvikudaginn 23. nóvember 2022 kl. 13:30

Vistvænar og vandaðar vörur úr fiskleðri

AtlantikH er falleg og einstök verslun með vistvænum vörum úr íslensku fiskroði og lambaleðri. Veski, belti, lyklakippur og töskur eru meðal þess sem AtlantikH hefur upp á að bjóða en Guðlaug Hulda Tindskard, eigandi og stofnandi fyrirtækisins, hannar vörurnar. Guðlaug er fædd og uppalin í Sandgerði en hún flutti til Danmerkur fimmtán ára gömul, árið 2019 flutti hún svo aftur á heimaslóðirnar.

„Ég er rosalega góð með allskonar bolta á lofti - svona týpískur Íslendingur. Svo einhvern veginn dett ég inn á fiskleðrið og verð ástfangin. Ég vissi ekki að ég væri hönnuður en mér datt þetta allt í einu í hug og komst að því að þetta væri rosalega gaman. Ég hanna sjálf allar vörurnar og kem með allar hugmyndir en er með tæknilegan teiknara, sem er dönsk stelpa búsett í Frakklandi, og hún sér svo um framleiðsluna fyrir okkur og fylgir henni alveg til enda,“ segir Guðlaug. 

Byrjaði aftur á núllpunkti

Reksturinn gekk vel fyrir Covid og Guðlaug segir hann hafa farið fljótt á flug en eftir að heimsfaraldurinn skall á ákvað hún að taka skref til baka og bjóða upp á persónulegri þjónustu. „Ég flyt aftur í Sandgerði í desember 2019, eiginlega bara rétt áður en að Covid byrjaði. Þegar ég flyt þá var ég búin að koma þessum vörum vel fyrir í allskonar stórum fyrirtækjum erlendis. En eftir að ég flyt til íslands þá ákvað ég að minnka við mig aðeins, við ákváðum að breyta um stefnu og vildum frekar selja okkar eigið. Þá er manni svolítið kastað til baka og við þurftum í raun að byrja á núllpunkti aftur en það er náttúrulega bara gaman að sjá hvernig þetta allt fer. Núna er hugsunin að koma vefsíðunni og samfélagsmiðlunum okkar á almennilegt flug,“ segir Guðlaug. Ein af ástæðunum fyrir þessum breytingum er sú að Guðlaugu langaði að vinna meira að heiman og geta sinnt fjölskyldunni meira en hún og eiginmaður hennar eiga saman þrjár stelpur. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Persónuleg þjónusta í forgangi

Guðlaug opnaði rými við Strandgötu 22 í Sandgerði sem er sýningarstaður fyrir vörurnar, sem er heldur frábrugðinn venjulegum verslunum en þar er opið eftir eftirspurn. Hún leggur mikið upp úr persónulegri þjónustu og segir hún það vera part af þessari nýju stefnu fyrirtækisins. „Mig langar sjálf að kynnast kúnnanum og gera þetta svolítið persónulegt. Sem dæmi var kúnni sem keypti belti af mér í síðustu viku, beltið er hægt að stækka og minnka, hún vissi ekki hvernig hún ætti að gera það svo ég „skutlaðist“ til hennar í Keflavík og gerði það fyrir hana. Það er svona þjónusta sem mig langar að geta boðið upp á, það er rosalega gaman að geta stundum tekið skref til baka líka, mér finnst það svolítið kósý,“ segir hún og bætir við: „Ég hef oft verið spurð hvort ég vilji ekki vera með búð í Reykjavík, þar sem fólk fer oft í leit af vörum. Ég held það yrði skref í ranga átt á miða við það að ég er að reyna að gera - að taka skref til baka og gera þetta meira persónulegt. Ég er með frekar sveigjanlega opnunartíma vegna þess að við erum ekki miðsvæðis, ég vil ekki festa mig niður á einn tíma heldur finna aðeins hver eftirspurnin er í samfélaginu.“

Vistvænt og vandað

Helsta einkenni varanna frá AtlantikH eru vistvænu íslensku efnin sem notuð eru í þær. „Við höfum gert ótrúlega mikið úr því að reyna að nota íslenska náttúru. Það er ótrúlega vistvænt að súta leður á Íslandi, við erum með 100% hreina orku og ekki nóg með að við séum að nota efni í vörur sem yrði annars urðað heldur erum við líka að hugsa um að vera vistvæn alla leið. Súdunarvatnið sem við notum er oft nýtt allt að átta sinnum, þó svo að á Íslandi hefði maður hugsað að því yrði bara urðað og nýtt sett í. Við reynum að hugsa svona hluti alla leið,“ segir Guðlaug. Aðspurð hvers vegna þau kjósa að nota fisk- og lambaleður frekar en eitthvað annað segir hún: „Við notum bara afurðir sem yrði annars urðað. Fiskleðrið er átta til tólf sinnum sterkara en venjulegt leður en 99% af öllu fiskroði í öllum heiminum er urðað, einungis 1% er notað og það er notað í fiskleður, í prótein og í gervihúð. Mest allt annað sem við notum er íslenskt lambaleður, ef það er ekki hægt að nota íslenska lambaskinnið í síðhærðar gærur þá er því yfirleitt líka urðað.“ Þá segir hún fegurðina liggja í smáatriðunum. „Við gerum rosalega mikið úr öllum smáatriðum, það er mikið notað ódýrt leður í ólar og svoleiðis en við veljum frekar gæði fram yfir magn. Við gerum sem mest úr hverri vöru og við framleiðum allt þannig.“

Guðlaug segist vera spennt fyrir komandi tímum hjá AtlantikH. „Á miðvikudaginn og fimmtudaginn í þessari viku, fyrir Black Friday, ætlum við að hafa opið frá 16 til 18 og verðum með 25% afslátt á vörunum okkar. Í framhaldinu langar mig að gera eitthvað skemmtilegt með öðrum litlum hönnuðum hérna á Suðurnesjum. Það væri til dæmis gaman að fara út í einhverskonar samstarf eða samvinnuverkefni.