Vísindi á Vesturbergi
Það var nóg um að vera á leikskólanum Vesturbergi í Reykjanesbæ í dag þegar blaðamaður kíkti í heimsókn. Í fyrsta sinn var haldinn svokallaður Vísindadagur þar sem krakkarnir fengu að skapa og leika með ýmsa skemmtilega hluti.
Það sem vakti hvað mestan áhuga hjá ungviðinu var sérstakur töfraleir sem er alveg hreint magnaður. Tilgangurinn með þessum skemmtilega degi er að vekja athygli barna á vísindum og leggja ákveðinn grunn fyrir stærðfræðinám sem hefst hjá börnunum innan skamms. Vel tókst til og höfðu kennarar á orði að upp frá þessu yrði þetta líklega árviss viðburður.
Meðfylgjandi myndir tók Eyþór Sæmundsson í morgun en myndasafn frá deginum má finna hér.
Þessir voru í sérstöku „húsi“ með vasaljós að vopni. Þeir voru að skoða stjörnurnar.