„Viltu taka mynd af okkur?“
Þessir vösku strákar, Sahid, Gunnar, Kristófer og Victor, bönkuðu upp á hjá skrifstofu Víkurfrétta áðan og vildu að tekin yrði af þeim mynd til birtingar. Á móti var skorað á þá að hlaupa fimm hringi í kringum skrifstofubygginguna við Krossmóa og þeir létu ekki segja sér það tvisvar, enda sögðust sumir þeirra æfa hlaup.
Í tilefni þess að tombólumyndir Víkurfrétta hafa slegið í gegn á Fésbókarsíðu blaðsins spurði blaðamaður vinina hvort þeir héldu einhvern tímann tombólu eins og margir krakkar gerðu í „í gamla daga“ og fengu síðan mynd af sér í blöðin. Þeir könnuðust ekki við slíkt en ætluðu að hugsa málið. Svo kvöddu þeir hressir í bragði og ætluðu að hlaupa heim til að segja frá reynslu dagsins.