„Viltu ekki bara giftast honum pabba þínum?!“
– Guðrún Ösp Theódórsdóttir í jólaspjalli
Guðrún Ösp Theódórsdóttir, hjúkrunarfræðingur á slysa- og bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, fann fyrir mikilli samkennd með aumingja Kevin í myndinni Home Alone og hún segist vera mikið jólabarn, enda sjálf fædd milli jóla og nýárs. Það má ekki nefna við hana að breyta matseðlinum á jólunum og hún segir skötuna lykta eins og sýkt sár og það sé ekki séns að hún smakki á henni.
– Hver er besta jólamyndin?
Besta jólamyndin er klárlega Home Alone. Miðjubarnið ég fann fyrir mikilli samkennd með aumingja Kevin, gleymda barninu á jólunum. Mér fannst Buzz stóri bróðir hans ekkert ósvipaður Gunnhildi systur þegar hún var uppá sitt besta og sagði mér að ég tilheyrði ekki fjölskyldunni og hefði fundist í ruslatunnunni. Mamma mín hefði líka gert hvað sem er til að redda málunum ef þetta hefði gerst í minni fjölskyldu Kemur mér í jólaskap jafnvel í júní.
– Hvaða lag kemur þér í jólaskap?
Uppáhaldsjólalögin mín eru Þú komst með jólin til mín með Bó og Ruth Reginalds og Þegar jólin koma með Á móti sól. Svo klassíkin eins og I'm dreaming of a white Christmas og It's beginning to look a lot like Christmas. Jólanótt með Ragnheiði Gröndal eftir hann Ellert vin okkar hjónanna á líka sérstakan stað í hjarta mínu.
Ég sakna þess að geta ekki hringt í Brosið og fengið óskalag og kveðju með því
– Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Ég er mikið jólabarn, enda á ég afmæli milli jóla og nýárs, og ég er mjög vanaföst með allt, hvort sem það eru jól eða annað. Ég baka alltaf smákökur þrátt fyrir próflestur og verkefnavinnu. Hvítir lakkrístoppar og ömmu Dúnnu súkkulaðibitakökur eru fæðuflokkur út af fyrir sig á aðventunni. Eiginmanninum finnst við hæfi að hefja ýmsar framkvæmdir í byrjun desember og klára svona fjórum dögum fyrir jól, sem setur strik í jólahreingerninguna. Í ár er það að flísaleggja eldhúsið. Mér finnst síðan ómissandi að taka rölt á Hafnargötunni á Þorláksmessu með fjölskyldunni. Karlinn fer í kakó með börnin á Ránni, sem er hefð hjá honum, á meðan ég kaupi síðustu jólagjöfina...oftast handa honum. Jólunum fylgja svo fullt af jólaboðum og til dæmis förum við í kjúklingaboð á annan í jólum með stórveldunum fimm, móðursystrum mínum. Þá er kjúlli klæddur í sparibúning með stöffing og góðri sósu og svo ís með marssósu í eftirrétt. Alveg frábær hvíld frá öllum bjúgvaldandi matnum hina dagana. Þá eru spiluð borðspil sem mér finnst ómissandi á jólunum. Síðustu jól keypti ég risapúsl og við fjölskyldan vorum að vinna í því öll jólin við misjafnar undirtektir en ég vil endilega koma þessari nýju hefð á hjá fjölskyldunni enda einlægur áhugamaður um teymisvinnu og allt sem eflir hana.
Áramótin eru síðan tilfinningaríkur tími í mínum huga, ég er logandi hrædd við flugelda og hætti mér ekki út úr húsi á gamlárskvöld fyrr en um tvítugt. Þá á ég það til að fella tár yfir sálminum "nú árið er liðið í aldanna skaut" þegar minningaflóð ársins hellist yfir mig.
– Hvernig er dæmigerður aðfangadagur hjá þér?
Dæmigerður aðfangadagur hjá mér hefst á því að sofa eins lengi og börnin leyfa. Svo held ég áfram eldamennskunni á möndlugrautnum (grjónagrautur) sem hefst venjulega á Þorláksmessu. Börnin horfa á sjónvarpið og við hjónin eldum. Við tökum svo rúnt með jólagjafir og jólakortin sem ég gleymdi að setja í póst á réttum tíma. Við komum við í kirkjugarðinum hjá tengdaforeldrum mínum, afa og ömmu og fleirum sem við söknum mest yfir hátíðirnar. Þegar heim er komið þarf yfirleitt að krulla hár á tveimur og stundum þremur stelpum og yfirleitt er það ég sem verð útundan vegna tímaskorts og enda með hárið í snúð eða út um allt þegar við setjumst við kvöldverðarborðið klukkan sex á Aðfangadagskvöld. Mamma hafði alltaf messuna á í útvarpinu og við gerum það
– Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Eftirminnilegasta jólagjöfin. Þetta er erfið spurning. Ég hef alltaf notið þess meira að sjá viðbrögð annarra við gjöfunum sem ég gef. Ég gleymi því þó aldrei þegar mamma opnaði gjöf frá pabba og í pakkanum var miði sem á stóð: "gjöfin þín er í bílskúrnum". Mamma hljóp út í bílskúr og hélt hún væri að fá bíl og við á eftir henni en þar blöstu við þessi fínu skíði. Þá var mikið hlegið. Mér þykir alltaf vænt um föndruðu gjafirnar frá börnunum og sérstaklega handarfarið úr gifsi sem Júlía Rún eldri dóttir mín gaf mér þegar hún var þriggja ára. Í fyrra náði síðan maðurinn minn að koma mér á óvart þegar hann gaf mér iphone, sem ég átti ekki von á.
– Hvað er í matinn á aðfangadag?
Það er ekki hægt að tala mig inná matseðilsbreytingar á jólunum, ég mun alltaf hafa möndlugraut, graflax, hamborgarhrygg, brúnaðar kartöflur, piknik kartöflustrá, sveppasósuna hans pabba og óhollt rjómasalat. Ein jólin gerði maðurinn minn sósuna og ég setti eitthvað út á hana og þá hreytti hann þessum fleygu orðum í mig: "Viltu ekki bara giftast honum pabba þínum?!"
– Eftirminnilegustu jólin?
Ætli eftirminnilegustu jólin verði ekki bara jólin 2012. Þá handleggsbrotnaði hún Heiðrún Helga, yngri dóttir mín, þá tæplega tveggja ára, á Þorláksmessukvöld og grét svo alla nóttina. Aðfangadagsmorgun fór í úrlestur röntgenmynda og gifsun á slysó hér á HSS. Ég var ekkert mjög áhugasöm um að eyða morgninum "í vinnunni" en við fengum frábæra þjónustu þar enda sáu góðar vinkonur mínar, Bóel læknir, Stellan mín á röntgen og Berglind Ásgeirsdóttir vel um okkur en barnið gifsaði ég sjálf með aðstoð þeirra. Við mæðgurnar vorum síðan ansi sjúskaðar þann aðfangadag, Heiðrún Helga harðneitaði að fara í föt og var því hálf í samfellu og ég illa sofin.
– Hvað langar þig í jólagjöf?
Eins og ég sagði áðan þá gleður mig mest á jólunum að hitta naglann á höfuðið og ramba á réttu gjöfina og gleðja þannig aðra. En ef ég gæti valið um hvað sem er þá væri það fjölskylduferð til útlanda. Ég er vel meðvituð um að ég hef það gott að fá að eiga góð jól með fjölskyldunni minni þar sem allir eru heilsuhraustir og jólin vekja engan kvíða. Hugur minn er oft hjá börnum sem eru ekki eins lánsöm og við, hvort sem það er vegna veikinda, vímuefnaneyslu eða fátæktar. Í mínum huga eru jólin fyrst og fremst hátíð barnanna og veit að ég mun sakna hennar Alexöndru, stjúpdóttur minnar, sem verður uppi í sveit með mömmu sinni þessi jól.
– Eru einhverjar hefðir í kringum Þorláksmessu hjá þér?
Það er ekki séns að ég smakki skötu, lyktin er alltof viðbjóðsleg og minnir óneitanlega á lykt úr vel sýktu sári. Í gamla daga fékk ég hangikjöt hjá ömmu Dúnnu á Þorláksmessu en síðustu árin fer eiginmaðurinn í skötu með afa sínum og bræðrum meðan við mæðgurnar og Amma Imma styrkjum skyndibitamenningu Reykjanesbæjar ýmist með góðgæti frá Villa Pulsu eða glóðvolgri pizzu.