Villibráðahlaðborð á Lava – Bláa Lóninu á laugardag
Villibráðahlaðborð er nú í fyrsta sinn í boði á Lava, veitingastað Bláa Lónsins laugardaginn 24. október. Aðalsteinn Friðriksson, yfirmatreiðslumeistari, hefur m.a. veitt hluta af bráðinni. Aðalsteinn sem hefur stundað skotveiðar um árabil sagði að það hefði vissulega gert undirbúning hlaðborðsins enn skemmtilegri !
Forréttirnir eru til þess gerðir að vekja bragðlaukana en vanillu og kaffigrafinn lax, hreindýrarúlla með mandarínuosti, léttsteikar svartfuglsbringur með malt og rúsínusósu og hrefnuþynnur með sætri soyasósu eru á meðal þess sem má finna á forréttaborðinu. Aðalréttir samanstanda m.a. af Lambi, hægeldaðri hrefnu og andabringum með appelsíni. Óhætt er að segja að hinir vinsælu drykkir, malt og appelsín, hafi öðlast nýtt hlutverk á matseðli Lava. Eftirréttir sem felast m.a. í Whisky súkkulaðiköku og villi-jarðaberjaköku setja punktinn yfir i-ið.
Boðið verður upp á fordrykk að hætti veiðimannsins auk þess sem gestir fá boðskort í Bláa Lónið. Vínkynning verður einnig í boði Globus og gefst gestum tækifæri til að bragða á vínum sem henta vel með villibráðinni. Tónlist kvöldsins verður í höndum þeirra Egils Ólafssonar, Björns Thoroddsen og Gunnars Hrafnssonar. Allir gestir fá boðsmiða í Bláa Lónið sem gildir út mars 2010.
Umgjörð Lava, þar sem Blátt lón og villt hraun blasa við gestum skapar villibráðahlaðborðinu ómótstæðilega umgjörð.