Vilja sögusetur í Hafnir í anda franska spítalans á Fáskrúðsfirði
Félagið Áhugahópur um Jamestownstrandið var stofnað formlega í janúar 2017 en þá hafði fámennur hópur áugafólks um strandið hist á fundum frá árinu 2014. Meðal verkefna sem félagið vill gera er að útbúa merkingar á þau hús sem byggð voru úr við úr farmi skipsins sem strandaði við Hafnir árið 1881. Vitað er um nærri 20 hús. Í skipinu voru hundrað þúsund tilsniðnir viðarplankar úr harðviði sem nota átti við smíði járnbrautarteina á Englandi. Helga Margrét Guðmundsdóttir og Tómas J. Knútsson eru m.a. í forsvari fyrir félagsskapinn.
Þið í áhugafélagi um Jamestown hafið verið að garfa í sögunni og nú er komin út þessi bók um strandið við Hafnir. Ertu ánægður með bókina?
Tómas: „Ég er mjög ánægður með þessa bók og mikill fróðleikur og margt sem kom mér virkilega á óvart og mér finnst bara sögugildi þessarar bókar fyrir okkur Suðurnesjamenn vera alveg gríðarlegt.“
Það er alveg ljóst að strandið er merkilegasti atburður sögunnar hér suður með sjó.
Tómas: „Alla vega miðað við það sem ég er búinn að uppgötva núna í kringum lestur bókarinnar. Það var ekki neitt skrifaði um þetta í Öldinni okkar. Sigurður Sívertsen skrifaði um þetta í sínum annál á sínum tíma. Þetta risti ekki djúpt en miðað við hvað þetta gerði fyrir samfélagið hérna þá finnst mér þetta stórviðburður.
Sammála því Helga?
Helga Margrét: „Já, ég er algerlega sammála því að bókin er alveg einstök. Þegar við fórum í upphafi af stað með þetta áhugafélag, var það fyrst og fremst sagan sem við vildum halda á lofti og þá hvað varð um þennan farm og eru þessar spýtur hér er í einhverjum húsum. Það sem kemur fram í bókinni sem er sérstakt er að höfundurinn, Halldór Svavarsson, er seglagerðarmeistari þannig að hann kemur með alveg nýja vídd inn í söguna. Ekki bara farm skipsins heldur skipið sjálft, seglin, allar rær og víra. Það sem kom mér mest á óvart er að hann fór mikið út í aðra hluti heldur en við höfum verið að gera.“
Höfundurinn segir líka nokkuð vel frá því hvernig samfélagið bregst við þegar þetta stóra strand verður, hvernig tekst að bjarga farminum og annað.
Þetta hefur verið nokkuð flókið mál á sínum tíma þegar skipið rak hér að landi?
Helga Margrét: „Já, hugsið ykkur bara að komast út í skipið og ná þessum farmi á land og síðan að nýta sér hann í húsakost og annað. Við höfum heimildir fyrir því að þetta breytti heilsufari fólks á Suðurnesjum og það voru búnar til borðstofumublur og hurðin varð fræg í Kotvogi í Höfnum. Hún var kölluð tappahurðin því það var svo mikið af götum í henni eftir eir- eða koparnagla.“
Tómas: „Skipið var allt saman neglt meira og minna saman með koparnöglum. Það sem hefur heillað mig líka er að í hvert einasta skipti sem ég hef farið þarna út að strandstaðnum að kafa eða að vera í einhverjum ferðum í kringum það, þá kúplast ég algjörlega út úr öllu daglegu stressi og áreiti og fer inn í þennan heim. Ég gleymi öllu sem er fyrir utan Jamestown. Það finnst mér það besta við þetta.“
Hvað áttu við með að heilsufar hafi batnað?
Helga Margrét: „Húsakynnin voru allt önnur og það var ekki verið að vera kúldrast í torfkofum og allt saman ískalt. Við höfum heimildir fyrir því. Það voru fleiri menn sem komu í verið af því að húsakynnin voru öðruvísi, þannig að þetta hafði mjög mikil áhrif.“
Þú hefur áhuga á að byggt verði hús þarna sem Kotvogur var.
Helga Margrét: „Já, mér finnst bara að við þurfum að fara að hafa hér meiri ferðasöguþjónustu. Það vantar hérna á Suðurnesjum upplýsingamiðstöð þar sem ferðamenn geta fengið að vita um sögun. Sagan er hér um allt og hún liggur einhvers staðar í leyni. Til dæmis sagan um Kotvog, þetta merkilega hús þar sem voru sextán hús og 39 hurðar á járnum og þar voru þegar mest var upp undir hundrað manns. Þessi saga má ekki hverfa.“
Tómas: „Ég á nú sem betur fer líf fyrir utan rusl og drasl í fjörum landsins en þetta er eitthvað að skemmtilegasta sem ég geri, að fara þarna á þennan strandstað og þetta svæði inni í Ósabotnum og bara eiga stund og stað. Ég er alltaf að sjá þetta fyrir mér, þetta skip og frásagnir frá þessum og hinum þegar skipið klofnar og af hverju fer þetta hingað og hitt þangað. Ég er alltaf að spá og spekúlera og á mínar eðalstundir á þessum stað.“
Tómas hefur í félagi við aðra bjargað úr hafinu munum er tilheyrðu Jamestown. Akkeri skipsins eru komin á land og munir eru á Byggðasafni Reykjanesbæjar. Ennþá á eftir að bjarga hlutum á land.
Það var síðan tilviljun að þú fórst að ná í ankerið þarna í Ósabotnum við Hafnir?
Tómas: „Þetta hafði blundað í hausnum á mér í áratugi. Ég vissi af strandinu vegna þess að Jón Borgarsson og Þóroddur og Bubbi vinur min höfðu sagt mér frá þessun. Síðan gerist það að við ætluðum að fara að ná í akkeri fyrir Valdimar hf. í Vogum. Við vorum búnir að fara deginum áður og merkja staðinn. Svo um morguninn þegar við komum þá var einhver Vogamaður búninn að hirða belginn þannig að merkingin var farin af staðnum. Þá skaust Jamestown upp í hugann svo við fórum bara með bátinn og allar græjurnar út í Hafnir, hringdum í Jón Borgarsson og fengum staðsetningu og þar byrjaði þetta Jamestown-ævintýri mitt.“
Sérðu fyrir þér sögusetur þarna Helga?
Helga Margrét: „Kerfið er þungt og við þurfum náttúrulega að sækja um styrki og við höfum ákveðna sýn. En við sjáum fyrir okkur þarna sögusafn. Það eru margar sögur úr Höfnum, ekki bara Jamestown, en aðal áhugamál okkar núna í félaginu er að reyna að merkja þær minjar sem við höfum fundið, þau hús sem við höfum fundið og hafa að hluta eða öllu leyti verið byggð úr timbri úr Jamestown. Það að búið væri að flytja hús á milli Njarðvíkur, Vatnsleysustrandar og inn í Blésugróf í Reykjavík. Við viljum endilega fá að merkja þessi hús. Það voru ekki bara þessir hundrað þúsund plankar sem voru í þessum farmi, heldur var káeta skipstjórans öllu úr mahóní og það var margt um borð í skipinu annað en segl og vírar og timbur.“
Sérðu fyrir þér safnið eitthvað í líkingu við það sem er á Fáskrúðsfirði með franska spítalann?
Helga Margrét: „Já, við getum búið til Kotvog í þeirri mynd sem franski spítalinn var gerður. Við eigum okkur þann draum að setja á svið hvernig Hafnir voru. Hvernig var byggðin þarna, hvaða fólk bjóða þarna? Jón Thorarensen ólst t.d. upp þarna hjá Hildi frænku sinni og hann skrifaði margar bækur eins og Litla skinnið og Suðurnesjaannál sem birtist í Rauðskinnu. Það eru margar frásagnir sem hægt væri að gera skemmtilega sögusýningu um.“
Þetta er skemmtilegt verkefni og þið iðið í skinninu að halda áfram?
Tómas: „Já, nú er komið að kafla tvö. Nú er þessi bók komin út og nú brettum við upp ermarnar og fáum fjármagn til að geta sett vegleg, falleg skilti á þau hús sem við vitum 100% að hafa timbur úr skipinu svo að sagan glatist ekki.“