Vilja markvissari fræðslu um erfið málefni
Nemendur í 8. og 9. bekk í Holtaskóla fengu í morgun góða heimsókn frá leikhópnum 540 gólf - Leikhúsi sem undirbúa uppistandið/leikritið „Hvað ef?“. Verkið fjallar um viðkvæm mál eins og vímuefni, áfengi, kynferðisofbeldi, klám, ölvunarakstur, einelti og foreldravandamál á umbúðalausan og skemmtilegan hátt.
Opnir krakkar með sterkar skoðanir
Heimsóknin er liður í upplýsinga- og hugmyndaöflun leikhópsins til að ákveða efnistök og voru nemendurnir afar opnir og áhugasamir þótt málefnin væru mörg af alvarlegum toga. Að þeirra mati er ekki næg fræðsla í grunnskólum yfirleitt og þau væru til í hún væri markvissari. Vitneskjan um slík málefni fái þau aðallega í gegnum félaga, fjölmiðla, á netinu og þegar þau heyri fullorðna tala saman um þau.
Afleiðingar neteineltis hugleiknar
Þau segja félagsskap, hópþrýsting, uppeldi, stuðning vina og félagslegar aðstæður hafa mikið að segja um ákvarðanir ungs fólks og margt beri að varast. Þá sögðust þau vera harðákveðin í að nota ekki eiturlyf og ekkert þeirra sagðist hafa prófað áfengi eða tóbak. Afleiðingar neteineltis voru þeim afar hugleiknar vegna umræðu um slíkt í samfélaginu. Þau segja að ótrúlegt sé hversu margir láti ljót og meiðandi orð flakka um aðra, jafnvel undir nafni og mynd.
Húmor og einlægni að vopni
Verkið „Hvað ef?“ hefur verið sýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu frá árinu 2005 og hefur hlotið einmuna lof unglinga, foreldra, kennara og þeirra sem hafa staðið í forvörnum og fræðslu. Með húmorinn og einlægnina að vopni einsetur leikhópurinn sér að opna umræðuna um raunveruleika ungmenna á Íslandi. Um 20 þúsund unglingar, foreldrar og kennarar hafa séð verkið.
Íslandsbanki og 540 gólf - Leikhús hafa gert með sér samstarfssamning um sýningar á Hvað Ef? og mun Íslandsbanki bjóða grunnskólum, foreldrafélögum og mennta- og fjölbrautarskólum á sýningar á komandi vetri. Um 35 sýningar er um að ræða. Leikstjóri er Gunnar Sigurðsson og leikendur þau Sveinn Ólafur Gunnarsson, Álfrún Helga Örnólfsdóttir og Kolbeinn Arnbjörnsson.
VF/Olga Björt ([email protected])