Vilja fleiri raddir í kórinn
Starfsárið hafið hjá Karlakór Keflavíkur.
„Karlakór Keflavíkur hefur jafnan starfsár sitt við undirbúning Ljósanætur. Þá hittumst við karlarnir og og dustum rykið af söngröddunum,“ segir Þorvarður Guðmundsson, sem tók við sem formaður karlakórsins í sumar. Þorvarður hefur sungið með kórnum meira og minna frá því að hann flutti aftur heim fyrir sex árum. Áður söng hann með karlakórnum Lóuþrælum í Húnaþingi vestra og var líka formaður hans á tímabili.
Opnar æfingar
Karlakór Keflavíkur söng tvisvar á Ljósanótt; fyrst við opnun ljósmyndasýningar Jóns Tómassonar, en Jón var stofnfélagi karlakórsins og fyrsti formaður hans. Síðan söng kórinn samkvæmt hefðinni í Bíósal á laugardeginum. „Við ætlum að byrja vetrarstarfið að þessu sinni á því að halda svokallaðar opnar æfingar þar sem við bjóðum nýja söngmenn sérstaklega velkomna. Æfing var mánudagskvöldið 15. september og verður aftur í kvöld, 18. september í Karlakórshúsinu á Vesturbraut. Æfingar hefjast kl. 19:30. Þá ætlum við að syngja ýmis lög sem kórinn hefur verið með á söngskrá sinni í gegnum tíðina,“ segir Þorvarður.
Fjölmennt kóramót framundan
Að jafnaði eru um 30 karlar sem stunda kóræfingarnar en hópinn langar til að verða svolítið fjölmennari og þá sérstaklega í ljósi þeirra verkefna sem eru framundan. „Haustið 2015 ætlar kórinn að halda Kötlumótið sem er kóramót sunnlenskra karlakóra og þá eigum við von á fjölda kóra hingað á svæðið og höldum m.a. sameiginlega tónleika þar sem við syngjum í um 600 manna kór.“ Guðlaugur Viktorsson tók aftur við sem kórstjóri í haust eftir tveggja ára nám í Danmörku. Þorvarður segir Guðlaug hafa ýmsar skemmtilegar hugmyndir fyrir Kötlumótið sem vonandi geti orðið að veruleika. „Að vera í karlakór snýst ekki bara um söng heldur er þetta heilmikið félagsstarf líka. Við höldum pungakvöld á haustmánuðum, árshátíð, förum í ferðir og höldum stuðkvöld með óvæntum uppákomum. Þá förum við í æfingabúðir þar sem við undirbúum jólatónleikana, vortónleikana og fjölmargt fleira,“ segir Þorvarður og hvetur alla karla sem hafa gaman af því að syngja að kíkja á æfingu.