Vilja fjölga sjómönnum í Grindavík
Grindavík er sem kunnugt er ein stærsta verstöð landsins, en bærinn er þriðja aflahæsta höfn landsins. Þaðan gera út fjölmargir bátar og sjómenn eru vel á þriðja hundrað talsins.
Á nýju ári hafa bæjarstjóri og upplýsinga- og þróunarfulltrúi heimsótt frystitogara og línubáta í grindvíska flotanum til þess að kynna sjómönnum kosti þess að búa í Grindavík og freista þess að fjölga sjómönnum í bænum. Um þriðjungur skipverja á grindvískum bátum eru búsettir í Grindavík og því er eftir miklu að slægjast.
Að sögn Róberts Ragnarssonar bæjarstjóra hafa þeir fengið mjög góðar móttökur um borð í skipunum og sjómennirnir verið áhugasamir og spurt um ýmislegt, m.a. um ýmsa þjónustu í bænum, atvinnumöguleika fyrir maka, fasteignaverð, lóðaverð og ýmislegt fleira. Um borð í einum bátnum voru tveir skipverjar nýfluttir til Grindavíkur og voru afar ánægðir með þá ákvörðun enda hagkvæmt fyrir alla aðila þegar þeir voru búnir að reikna dæmið til enda. Ráðgert er að heimsækja fleiri skip í flotanum á næstunni.
Grindavík.is