Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vilhjálmur hélt burtfararprófstónleika frá Tónlistarskóla Sandgerðis
Föstudagur 8. apríl 2011 kl. 11:00

Vilhjálmur hélt burtfararprófstónleika frá Tónlistarskóla Sandgerðis

Vilhjálmur Skúlason, gítarnemandi við Tónlistarskóla Sandgerðis, hélt burtfarartónleika sína í Safnaðarheimilinu í Sandgerði laugardaginn 2. apríl sl. en hann er fyrsti nemandi skólans sem brautskráist frá skólanum. Vilhjálmur tókst á við mörg krefjandi verk tónbókmenntanna, lék þau af miklum metnaði og náði góðum árangri í tónlistarflutningnum. Á efnisskránni voru tónverk eftir þekkt tónskáld og má þar nefna J.S. Bach, Fernando Sor og fleiri. Vilhjálmur lék eitt verk ásamt kennara sínum, Guðmundi Hallvarðssyni, samleikur þeirra var í senn léttur, samstilltur og hljómfagur og flutningurinn litaði tónleikana á skemmtilegan hátt.

Gestum var boðið upp á kaffi og konfekt í hléi en eftir tónleika voru bornar fram girnilegar veitingar sem Sólrún Henriksdóttir, móðir Vilhjálms, hafði útbúið í tilefni dagsins. "Vilhjálmur er svo sannarlega góð fyrirmynd annarra nemenda og við erum afar stolt af stráknum," segir á vef Tónlistarskóla Sandgerðis. "Hann er kennara sínum, Guðmundi Hallvarðssyni, Tónlistarskóla Sandgerðis og Sandgerðisbæ til mikils sóma."

Úr tónleikadagsskrá:
Vilhjálmur Skúlason er fæddur 10. ágúst árið 1979 í Keflavík en ólst upp í Sandgerði og hefur búið þar allar götur síðan.

Haustið 1988 hóf hann gítarnám við Tónlistarskóla Sandgerðis, þá 9 ára gamall. Vilhjálmur var í samfelldu námi til ársins 1995 undir handleiðslu Guðmundar Hallvarðssonar, þeir tveir tengdust fljótt traustum böndum og varð raunin sú að Guðmundur var aðalkennari Vilhjálms allan námsferilinn.

Á sama tíma og Vilhjálmur lauk skólagöngu sinni frá grunnskólanum í Sandgerði hætti hann tímabundið í gítarnámi. Vilhjálmur lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja um áramótin 1998-1999 og útskrifaðist sem tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík árið 2002. Haustið 2000 skráir Vilhjálmur sig aftur í gítarnám við Tónlistarskóla Sandgerðis og lýkur prófhluta framhaldsprófsins vorið 2008.

Á þeim árum sem Vilhjálmur hefur stundað nám við skólann hefur hann komið fram á fjölda tónleika auk annarra viðburða, bæði á vegum skólans og einkaaðila. Einnig hefur hann verið ötull að taka þátt í ýmsum samleik í gegnum tíðina. Á árunum 2002-2004 tók Vilhjálmur að sér hlutastarf í gítarkennslu við skólann.

Hægt er að skoða ljósmyndir frá tónleikunum á vef tónlistarskólans með því að smella hér.

Mynd: Vilhjálmur Skúlason ásamt móður sinni, Sólrúnu Henriksdóttur

www.245.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024