Víkurfréttaljósmyndari með ljósmyndasýningu
Tobías Sveinbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, heldur þessa dagana ljósmyndasýningu á Salatbarnum við Faxafen 9 í Reykjavík. Sýninguna kallar Tobías „Ferðalag“. Sýningin stendur til 19. maí nk.
„Með sýningunni er ég að sýna ykkur ferðalag mitt sem spannar allt frá Siglufirði til Washington DC þar sem gaman er að bera saman mismunandi kúltur, arkitektúr og mannlíf. Á sýningunni má finna a.m.k. eina yfirlitsmynd frá þessum stöðum og svo útvalin smáatariði frá völdum stöðum“, segir Tobías í samtali við Víkurfréttir.
Tobías Sveinbjörnsson er fæddur 1983 og uppalin í sjávarþorpinu Grindavík. Hann hóf snemma að taka ljósmyndir og þegar hann var aðeins 14 ára átti hann sínar fyrstu myndir í blöðunum og hefur myndað af miklum krafti síðan. Hann dvaldist í Suður Karólínu USA '98 & '99 eða um tveggja ára skeið í námi. Frá árinu 2000 hefur hann starfað sem tölvu, tækni & vefstjóri hjá Ljósmyndaversluninni Beco ehf. Þegar hann kom frá USA hefur hann myndað mikið fyrir íslensk blöð og tímarit, og þar má nefna Morgunblaðið,
DV, Víkurfréttir og fleiri miðla.
Tobías notar mest Canon EOS 10D fyrir digital og Cambo stórformats myndavél fyrir filmu.