Víkingur til Leikfélags Keflavíkur
Leikfélag Keflavíkur hefur ráðið Víking Kristjánsson sem leikstjóra næsta verks sem frumsýnt verður í byrjun nóvember í Frumleikhúsinu. Þetta kemur fram á fésbókarsíðu leikfélagsins.
Víkingur útskrifaðist frá leiklistardeild LHÍ vorið 2001. Hann er einn af stofnendum Vesturports sem hefur sett upp fjölmörg verk á Íslandi og um allan heim.
Víkingur hefur leikstýrt í atvinnuleikhúsi, hjá áhugaleikhópum og í framhaldsskólum. Síðustu verkefni eru Allir á svið! með Leikfélagi Flateyrar (2013) og Þið munið hann Jörund með Litla leikklúbbnum á Ísafirði (2014).
„Hefur þú áhuga að taka þátt í uppsetningu þetta árið? Við óskum eftir einstaklingum sem geta leikið, dansað, saumað, málað, smíðað, spilað á hljóðfæri og margt fleira,“ segir á síðu leikfélasins.
Fyrsti fundur með leikstjóra og kynning á verki, verður miðvikudaginn 9. september í Frumleikhúsinu kl.19.00. Fyrir alla þá sem áhuga hafa á að taka þátt og starfa í leikhúsi. Eina skilyrðið er að vera orðinn 16 ára og hafa áhuga á leikhússtarfi.