Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Víkingaskipið Íslendingur verður leiksvið í nýju leikhúsi
Fimmtudagur 8. apríl 2010 kl. 09:35

Víkingaskipið Íslendingur verður leiksvið í nýju leikhúsi


Víkingaskipið Íslendingur verður leiksvið í nýju leikhúsi sem hefur starfsemi í Reykjanesbæ í vor í samstarfi við Víkingaheima.
Fyrsta sýningin verður hinn rómaði einleikur Ferðir Guðríðar eftir Brynju Benediktsdóttir, í nýrri uppfærslu Maríu Ellingsen. Frumsýning verður 9.maí og er miðasala hafin.
„Það er gaman að byrja með sögu víkingakonu og landkönnuðar og þetta einfalda snilldarverk Brynju, Ferðir Guðríðar liggur beint við. Það er líka góð tilfinning að minnast Brynju á þennan hátt. Hún var ávallt að ryðja brautina og ég er viss um að ef hennar nyti við væri hún mætt hér til að opna nýtt leikhús," segir María Ellingsen.


Áhorfendur fara í ferðalag með Guðríði

„Sýningin fór upphaflega í sigurför um Bandaríkin og Kanda í tilefni árþúsundamótanna og það sýndi sig að þessi leikræna túlkun var til þess fallin að vekja áhuga á þessum merkilega þætti Íslendingasagnanna sem tengir okkur og Vesturheim. Ekki er hægt að finna betri stað til að fá að upplifa söguna um Guðríði en um borð í Íslendingi en áhorfendur munu ganga um borð og fara í þetta ferðalag með Guðríði sem gengur um skipið og segir sögu sína sem hefst á ferðalagi frá Íslandi vestur um haf og endum á suðurgöngu Guðríðar, þar sem hún hittir páfann í Róm. En eins og Brynja sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum að þótt efni leiksins byggðist á ferðum þessarar víðförlustu konu miðalda væri verkið í raun ekki ferðasaga, heldur myndar ramma um sögu konu í hættulegum heimi, sögu um þann sem þorir að fara óhefðbundnar leiðir og taka á þeim sorgum og sigrum sem því fylgir," segir María.

Að leikhúsinu standa feðgarnir Einar Benediktsson og Pétur Einarsson og fleiri sem sáu fyrir sér að uppálagt væri að leika sögur víkinganna um borð í víkingaskipinu Íslendingi og efla þannig menningatengda ferðamennsku á staðnum. Þórunn Clausen leikur Guðríði, Snorri Freyr Hilmarsson hannar leikmynd, Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsir og Filippía Elíasdóttir hannar búninga.

Fyrsti evrópski Ameríkumaðurinn

Guðríður Þorbjarnardóttir er sennilega ein af athyglisverðustu og mikilvægustu persónum í íslenskri sögu. Guðríður kvæntist Þorsteini, syni Eiríks rauða, og þau bjuggu saman í Lýsufirði. Þau lögðu af stað til Vínlands og voru á sjó í heilt sumar en komust aldrei á áfangastað. Þorsteinn lést um borð í skipinu. Þá kynntist Guðríður Þorfinni karlsefni og fóru þau saman til Vínlands. Á Vínlandi bjuggu þau í búðunum sem Leifur heppni hafði gert er hann dvaldi þar. Þau eignuðust son sinn fyrsta vetur þar og skírðu hann Snorra. Guðríður var fyrsta móðirin í Ameríku af evrópskum uppruna og Snorri var fyrsta Evrópska barnið sem fæddist í Ameríku. Þegar Þorfinnur lést ákvað Guðríður að fara í pílagrímsferð til Rómar.
Þegar Guðríður kom aftur til Íslands hafði Snorri, sonur hennar, byggt kirkju að Glaumbæ. Guðríður gerðist nunna og bjó þar það sem eftir var. Guðríður var einstök og talin ein víðförlasta kona þessara tíma.
Frumsýningin verður 9.maí og munu sýningar standa í sumar og sýnt bæði á íslensku og ensku enda mikill áhugi hefur verið á því hjá erlendum ferðamönnum að sjá Íslending.


VFmynd/elg – Frá kynningu á sýningunni í Víkingaheimum. Leikonan Þórunn Clausen fer með hlutverk hinnar víðförlu Guðríðar Þorbjarnardóttur.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024