Viðreisn samfélagsins
Í Reykjanesbæ þann 16. apríl var haldinn kynningarfundur Viðreisnar, nýs stjórnmálaafls, sem hyggst bjóða fram á landsvísu til næstu Alþingiskosninga. Frjálslyndi og almannahagsmunir, er rauði þráðurinn í stefnu Viðreisnar - almannahagsmunir séu ætíð teknir fram yfir sérhagsmuni. Markmið Viðreisnar er að berjast fyrir frelsi, jafnrétti, réttlátu samfélagi, vestrænni samvinnu, stöðugu efnahagslífi og fjölbreyttum tækifærum. Hún berst gegn mismunun og vill nýta markaðslausnir í stað sérhagsmunavörslu stjórnmála- og embættismanna.
Fagmennska
Mótun þessa afls hefur nú staðið í rúm 2 ár. Þar hefur gott fólk úr öllum áttum komið að starfinu. Þá hefur álit sérfræðinga á helstu málefnum samfélagsins myndað grundvöll stefnumála Viðreisnar. Því það er ekki nóg að koma með hugmynd eða ávarpa eitthvað ákveðið vandamál, heldur þarf einnig að koma með útfærslu á hugmyndinni og leið til að leysa vandamálið. Í því skyni er samvinna innan stjórnmála mjög mikilvæg. Öll vinnum við að sama markmiði; að bæta lífskjör íbúa samfélagsins.
Frjálslyndi
Best er að lýsa Viðreisn sem fersku og nýju umbótaafli. Nú er einmitt samhljómur og einlægur vilji meðal almennings að auka heiðarleika og gegnsæi í stjórnmálum. Þá er einmitt tímabært að afl eins og Viðreisn svari kallinu, þar sem það afl mun berjast fyrir auknum heiðarleika og breyttum háttum í íslenskum stjórnmálum. Þetta afl samræmist best hinu nútímalega, frjóa og víðsýna frjálslyndi, sem nauðsynlegt er þjóðinni til að taka skref inn í nútíðina og uppræta sérhagsmunagæslu afturhaldsafla.
Ferksleiki
Mikilvægt er að þingið spegli samfélagið í heild sinni og að allir hópar hafi fulltrúa við borðið. Því samfélagið er ekki einungis fyrir einstaka hópa - Það er fyrir okkur öll. Virkja þarf ungt fólk og nauðsynlegt er að rödd þess heyrist. Þessi hópur á að fá að taka virkan þátt í mótun samfélagsins, ekki síst hvað varðar menntamál, velferðarmál og húsnæðismál. Þar að auki er ferskleiki mjög nauðsynlegur samfélaginu, þar sem það þarf að vera opið fyrir breytingum og nýjum tíðaranda.
Framtíðin
Sveitarstjórnarkosningarnar í Reykjanesbæ árið 2014 voru mér mjög hugleiknar. Þar hafði ég ýmislegt um stöðuna að segja. Þá stóðu íbúar frammi fyrir ákveðnu vandamáli, þá var fjárhagsstaðan slæm og útlitið svart. Nú standa landsmenn fyrir vandamáli af allt öðrum toga. Þetta vandamál er ekki fjárhagslegs eðlis. Nú er um siðferði og stjórnarhætti að ræða. Skortur á samvinnu veldur stjórnarkreppu í samfélaginu og siðferðisbrestur í stjórnmálum veldur því að almenningur sér ekki birtuna fyrir skýjum sérhagsmunaafla. Hin hefðbundna hentistefna á að víkja fyrir umbótahugsjónum. Hvað hentar hag stjórnmálamanns hverju sinni á ekki að ráða för í stefnumótun, heldur hugsjónir með það markmið að bæta samfélagið. Þá á flokkshollustan að víkja fyrir gagnrýnni hugsun. Að lokum þarf siðferðisbresturinn og hagsmunagæslan að víkja fyrir réttlætiskennd og manngæsku. Þá fyrst sjáum við viðreisn samfélagsins.
Bjarni Halldór Janusson, formaður ungliðahreyfingarinnar, meðal stofnenda og situr í stjórn Viðreisnar.